Kannast við þetta.... braust einu sinni út úr búð með aðstoð löggunnar

Fyrir margt löngu þegar ég var enn á barnaskólaaldri ca. 9 ára, sendi mamma mig niður í Málningu og járnvörur sem var staðsett á Laugaveginum. Ekki man ég hvaða dagur var, en ekki gerði neinn ráð fyrir öðru en búðin væri opin.

Geng ég nú inn í búðina og litast um, ekkert fólk var á svæðinu svo ég bara beið.  Leið nú allnokkur tími og ég var nú farin að verða smeik,  halllóoo, er einhver hérna halllóoo?  Enginn svaraði.  Nú ekkert var annað til ráða en að fara bara aftur heim, en úpps,  báðar dyrnar voru lokaðar og læstar og ekki hægt að opna innan frá nema með lykli.  Ég man hvað ég varð rosalega stressuð, en hélt þó ró minni.  Rölti um búðina, en þorði ekki inn á lagerinn, því þar var svartamyrkur.  Peningakassinn var opinn og þar glitti í þvílík auðæfi í augum níu ára stelpu.  Svo rak ég augun í síma og hringdi hið snarasta heim og sagði mínar farir ekki sléttar.  Mamma ætlaði varla að trúa því að ég væri að segja satt, en sagðist hringja í lögguna og biðja þá að ná mér út úr húsinu.

Og það varð úr, lögreglan mætti hið snarasta á svæðið, en þeir gátu ekki opnað frekar en ég enda höfðu þeir engin lyklavöld í Málningu og járnvörum.  Þá fattaði einn snjall lögregluþjónn upp á því að fyrst þetta væri byggingavöruverslun þá hlyti ég að geta fundið stiga svo ég gæti prílað út um örmjóan glugga fyrir ofan útidyrnar.  Ég, spennt að losna úr prísundinni fann stiga og hamar að auki, því augljóst var orðið að berja þyrfti niður einhverja járnkróka sem þarna voru, svo ég myndi nú ekki skerast á hol á útleiðinni.

Þannig að ég prílaði upp stigann og reyndi að troðast út um gluggann og tveir lögrelguþjónar toguðu hraustlega í mig og tóku vingjarnlega á móti mér.  Það hafði safnast saman múgur og margmenni þarna við búðina og þegar ég glitti í mömmu í fólksfjöldanum féll mér allur ketill í eld og fór að hágrenja.

En við mamma fengum far heim með löggunni sem var náttúrulega mun meira spennandi.

 


mbl.is Búðardyrnar opnar í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

  Frábær saga hjá þér, ekki hefði ég viljað lenda í þessu svona ung. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 9.3.2009 kl. 20:35

2 Smámynd: Sigrún Aðalsteinsdóttir

Þetta endaði nú allt vel. Eigandinn kom þarna að þegar við mamma vorum á leið upp í löggubílinn og reddaði því sem ég átti að kaupa, auk þess sem hann gaukaði að mér peningum í verðlaun.

Fatta samt varla hvað ég var dugleg að burðast með stiga sem var tvisvar sinnum ég á hæð setja hann á réttan stað og príla svo upp.

Börn lifa í svo vernduðu umhverfi nú til dags og ég hef grun um að ef þetta hefði komið fyrir mín börn, hefðu þau varla verið svona úrræðagóð, jú... kannski stelpan, en ekki strákurinn, sem er þrettán árum yngri en hún

Sigrún Aðalsteinsdóttir, 10.3.2009 kl. 10:49

3 identicon

Guð var alveg búin að gleyma þessu. Er ég að verða gömul?

Gústa systir (IP-tala skráð) 11.3.2009 kl. 13:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband