Að minnast horfinna ástvina með gleði í hjarta

Senn líður að því að ég, systkini mín og makar hittumst enn aftur til þess að minnast móður okkar.  Í 31 ár höfum við hist í kringum afmælið hennar mömmu og gert okkur glaðan dag, eldað uppáhalds matinn hennar - sem við ólumst upp við sem jólamat, syngja og njóta lífsins. 

Ég var aðeins 16 ára þegar ég missti mömmu mína, þá var hún aðeins 44ra ára.  Hún kvaddi okkur í október eftir löng veikindi og strax í nóvember ákváðu eldri systkin mín að halda minningu hennar í heiðri með því að halda upp á afmælið hennar.

Einu sinni hef ég misst af veislunni, þá var ég búsett í Danmörku og hefði frekar viljað missa af jólunum.  En mamma mín lifir samt sem áður enn, kannski ekki á meðal okkar allra, en alltaf lifir hún í hjörtum okkar sem elskuðum hana og mun gera um ókomin ár.

Í vikunni fylgdi ég góðri konu til grafar, sem ég mun sakna um ókomin ár.  Hún Mæja mín - tengdamamma mín, kvaddi þennan heim fyrir skemmstu og mikið rosalega sé ég mikið eftir henni.  Hún reyndist mér alltaf sem besta móðir og var alltaf góð vinkona mín. Ég gerði sem ég gat til þess  að reynast henni vel og ég held að hún hafi kunnað að meta það litla sem ég gerði fyrir hana. 

Það gladdi mig allavega mikið þegar ég kom til hennar daginn áður en hún dó, tók í hönd hennar og bar henni kveðju barnanna minna og hafði orð á því að hún þyrfti að drífa sig í því að hressast því Sigrún Eva langömmustelpan hennar og Freddý Zanzibar hundurinn okkar, sem hún dýrkaði, biðu eftir því að fá að hitta hana.  Þá brosti þessi elska til mín og kreisti hönd mína.  Hún sem var lömuð vinstra megin og átti erfitt með mál, en hún brosti og mér fannst eins og hún vildi segja við mig að hún kæmi til okkar fljótlega.

Daginn eftir voru kraftar hennar því miður á þrotum og hún kvaddi þennan heim.  Börnin hennar ásamt mökum voru hjá henni og voru að sjálfsögðu sorgmædd, alveg eins og ég.  En allt í einu áttaði ég mig á einu.  Það er alveg eins með Mæju tengdamömmu og mömmu mína fyrir öllum þessum árum.  Þær hafa kannski yfirgefið þennan heim, en það er allt í lagi, vegna þess að þær munu alltaf lifa áfram í hjörtum okkar.  Minning um góðar konur, mun fylgja okkur og afkomendum okkar í ókomin ár.

Og næst á dagskránni hlýtur að vera að halda veislu einhvern tímann í kringum 2. apríl, sem var fæðingardagur hennar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

  Það er fallegt að halda minningu móður þinnar svona lifandi. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 16.11.2009 kl. 00:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband