Færsluflokkur: Bloggar
22.8.2010 | 00:05
Allt of fáir þingmenn miðað við landsmenn - eða hvað?
Hvernig stendur á því að þjóð eins og Ástralir sem telja rúmlega 22 milljónir manns hefur ekki fleiri þingmenn en rúmlega 220 í báðum deildum samanlagt?
Hvað ættu þeir eiginlega að hafa marga þingmenn miðað við hausatölu gagnvart Íslandi sem hefur 63?
Eða sem er jafnvel enn meira eftirsóknarvert að vita. Hvað ættu Íslendingar að hafa marga þingmenn miðað við sömu hlutfallstölur?
Ég læt öðrum talnagleggri eftir að reikna það út og þætti gaman að fá niðurstöðuna hér.
Spurningin er:
Ástralir eru rúmlega 22 milljónir með 226 þingmenn
Íslendingar eru 318.000 og hafa 63 þingmenn
stóran hluta þeirra algjörlega óvirka vegna pólitískra hagsmunatengsla, fjölskyldutengsla og annarra hagsmunatengsla.
Ég bara spyr? Hvernig er hægt að stjórna heilli heimsálfu eins og Ástralíu með aðeins 226 þingmönnum? Og hvernig stendur að örríki eins og Ísland með allan þennan þingmannafjölda var sett á hausinn af örfáum fjárglæframönnum og lítið sem ekkert virðist vera gert til þess að sækja þá til saka.
Það er eitthvað mikið að í okkar rotna stjórnkerfi.
Gott væri að fá skynsamleg svör frá ykkur kæru lesendur.
Ætli það geti verið að við eigum þarna enn eitt heimsmetið m.v. höfðatölu?
Hnífjafnt í Ástralíu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.10.2009 | 03:07
Íslenskukennsla manna og dýra
Á mínum vinnustað eru nokkuð margir útlendingar. Sumir eru búnir að búa lengi hér á landinu kalda og hafa að aðlagast nokkuð vel og skarta jafnvel tveimur vegabréfum. Þeir tala yfirleitt ágæta íslensku og ambögurnar eru bara krúttlegar, líklega svipaðar og ef ég hefði flutt til Rússlands fyrir 10 árum og þættist kunna rússnesku, t.d "ég var svo hissandi" (ég var mjög hissa). Svo eru aðrir starfsmenn á svæðinu sem hafa dvalið skemur og jafnvel ekki hugsað sér að ílendast. Þeir tala ekki íslensku og ætla sér ekki að læra hana, enda ekki þörf á því þar sem allir tala ensku við þá. Þó vil ég taka fram að allflestir þeirra tala mjög bjagaða ensku og ég er farin að reka mig á að ég er farin að tala jafn bjagaða ensku við þá. Þrátt fyrir að hér fyrr á árum talaði enskumælandi fólk um að ég væri mjög fær í ensku, m.v. að það væri ekki móðurmál mitt.
Monica samstarfskona mín sem er frá landi sunnarlega í Evrópu hefur ekki hugsað sér að læra íslensku þrátt fyrir hvatningu mína. Hún segir að hennar (bjagaða) enska dugi henni ágætlega. Ég er gjörn á að skella á hana einhverjum íslenskum setningum, sem hún apar svo eftir með frekar döprum árangri. T.d. var setningin "gjörðu svo vel" henni algjörlega óyfirstíganleg. Og nafnið mitt, ó, jú hún var nú góð með sig að geta sagt það rétt, þangað til að hún fattaði að það beygðist, Sigrún, Sigrúnu, Sigrúnu til Sigrúnar, þá féllust henni hendur og ég held að hún sé að huga að brottför fljótlega frá landinu bláa, þetta var meira en hún þoldi.
Mér hefur ekki tekist að pikka upp margar línur frá samstarfsmönnum mínum, enda er um "allra þjóða kvikindi" að ræða, svo líklega færi allt í flækju ef ég færi að læra ca 5 - 6 tungumál í einu. En nokkrar setningar hef ég tileinkað mér, þó ég hafi ekki hátt um það.
Það er annað mál með hundinn minn. Honum gengur ágætlega að læra íslensku. Hann skilur nú þegar eftirfarandi orð, eftir því sem ég best veit:
Freddý - nafnið hans
mamma, pabbi, Sara, Steini, amma og allnokkur manna- og dýranöfn til viðbótar. N.B. hann gerir sér fyllilega grein fyrir mismuninum á titlinum mamma og amma, þangað til ég fór að svara báðum, þá varð hvutti minn smá ringlaður
Síðan skilur hann vel orðin nammi (líklega hélt hann að það væri nafnið hans, þegar þjálfun hans stóð sem hæst), matur, pylsa, pulsa (ath. það er tvennt ólíkt), lifrarpylsa, bein og nýjasta orðið hans á þessu sviði er kæfa. Ég vil benda á að hann verður alveg extra flottur og ljúfur þegar þessi orð eru nefnd og líklegur til þess að sýna hinar ýmsu kúnstir til þess að þóknast viðmælanda sínum
Svo skilur hann, sittu, stattu, sæll, liggðu, dansa og vertu fínn og gimmífæv og hann er svo fjölhæfur að hann skilur meira að segja sit (sem er enska útgáfan) og set dig ned paa röven (sem er danska útgáfan). Ég vil taka það fram að hann skilur þessi orð mun betur ef einhverjum hlutum sem nefndir eru í fyrri málsgrein er veifað fyrir framan trýnið á honum
Hann lyftist allur og brosir sínu blíðasta ef honum er boðið út, en verður flóttalegur, með rófuna á milli fóta ef honum er boðið í bað. Þegar baðið er afstaðið þá er hann montinn með sig, en er ekki búinn að fatta setninguna: "Ekki hrista þig", sem þýðir að baðherbergið fer í bað um leið og hann
Ljúft þykir honum að heyra einhvern bjóða honum að koma í holu, þá kemur á hann sælusvipur og hann stekkur upp í sófa og hringar sig til fóta hjá viðkomandi. Hann gerir greinarmun á holu og pabbaholu, en þar er honum alveg bannað að vera og hefur ósjaldan lent í vandræðum þegar hann hefur komið sér notalega fyrir þar. Það er annað mál með mömmuholu, þar er mun ljúfara að kúra og meiri friður. Hann skilur vel orðin færðu þig, upp, út, niður, en hann virðist ekki skilja orðið hættu. Alla vega ekki fyrr en of seint. Hann verður allur uppveðraður ef minnst er á að fara í bílinn, en heldur verður hann niðurdreginn og lúpulegur þegar hann er settur í hundaöryggisbeltið, það er hans mesta niðurlæging
Hann veðrast allur upp ef einhver býður upp á knús eða svo maður tali nú ekki um koss, þá leggur hann trýnið sitt að vanga manns, en aðeins eitt augnablik, ekki til í að eyða miklum tíma í svoleiðis pjatt.
En best af öllu er að hann skilur orðin duglegur og sætastur (alveg eins og strákurinn minn) og sýnir alla sínu bestu takta þegar einhver nefnir ofangreind orð
Hann breytist í vígalegan varðhund þegar hann heyrir orðið kisa og bara við það að heyra í bjöllum nágrannakattanna missir hann heyrnina og gleymir algjörlega hvað nei, hættu, pylsa, pulsa og öll hin orðin þýða.
En af þessu öllu hef ég nú áttað mig á því að það er ekki svo erfitt að kenna einhverjum íslensku, það verða bara að vera verðlaun í boði og klapp á bakið.
Hvernig er annað hægt en elska þessi blessuð dýr sem við höfum tekið að okkur að vernda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.10.2009 | 23:41
Það er hljótt í mÖmmukoti.
Það kemur vel á vondann m.v. síðustu bloggfærslu mína að frúin er nú alein í mÖmmukoti, reyndar eru tveir ferfætlingar til að halda mér kompaní og kann ég það vel að meta.
En það verð ég að segja að það er skrýtið að vera allt í einu alein í kotinu eftir ca. eins árs fjör á bænum.
Við ætluðum reyndar að vera tvö í kotinu en kallinum bauðst eitthvað betra og lofar að koma ekki seint heim. Mæðgurnar skruppu bæjarleið austur í sveit í sumarbústað og unglingurinn er þar sem hann er - ekkert að gera neitt af sér. Passar alveg sérstaklega vel upp á getnaðarvarnir - held ég - eftir að systir hans flutti ólétt heim 28 ára gömul. En það var nú í kreppunni og vel skiljanlegt, við erum allavega glöð að hafa þær mæðgur hjá okkur.
En það var mikið gæfuspor. Það kenndi m.a. örverpinu okkar sem nú er orðinn unglingur að hann er ekki nafli alheimsins. Fram að því hafði hann haldið það - held ég - en núna í dag er hann fyrsti maður til þess að viðurkenna og fullyrða að litla systurdóttir hans hún Sigrún Eva er nafli alheimsins. Hann er algjörlega tilbúinn til þess að láta titilinn af hendi til litlu frænku, enda held ég að hún sé hans fyrsta ást. Verð þó að viðurkenna að hann er stundum pirraður þegar hún grætur á næturnar. En hvaða barn gerir það ekki? Og hann er sem betur fer fljótur að gleyma.
En í kvöld er hljótt - mjög hljótt í mÖmmukoti og mAmma kann alveg ágætlega að meta það, kannski ég skelli bara Uriah Heep á fóninn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.8.2009 | 03:06
Hugleiðing
Í hvirfilbyljum síðustu mánaða gleyma sumir því sem dýrmætast er. Að ættingjar og vinir hafi það gott og að manns nánasta fjölskylda sé þokkalega sátt við tilveruna. Það skiptir líklega mestu þegar öllu er á botninn hvolft.
Lífið er ekki bara til þess að svekkja sig á. Á þessum tímum er auðvelt að gleyma sér í ergelsi yfir því ástandi sem örfáir aðilar hafa kallað yfir þessa þjóð.
En við þurfum líka að líta á björtu hliðarnar.
T.d. er ég afar þakklát yfir því að tengdó er nú þokkalega hress eftir langan veikindakafla í vetur.
Að drengurinn minn fékk 8,7 í meðaleinkunn upp úr tíunda bekk.
Að dóttir mín og dótturdóttir búi hérna hjá okkur og við fáum að njóta þess að fylgjast með þroska litlu nöfnu minnar. Ömmuljósið vekur okkur broshýr á morgnana og þá er ekki annað hægt en ganga brosandi mót nýjum vinnudegi.
Að ættingjar mínir og vinir hafi komist þokkalega frá þessu hræðilega bankahruni, þó skuldabyrðar okkar allra hafi þyngst um ókomna framtíð, virðist sem við öll munum ráða við þær með auknu aðhaldi og sparsemi.
En ég veit að svo er ekki raunin hjá mörgum fjölskyldum þessa lands og ég hugsa til þeirra á hverjum einasta degi. Mér finnst óþolandi til þess að hugsa að svo margir hafi tapað umtalsverðum fjárhæðum vegna bankahrunsins og jafnvel öllum sínum eignum. Allar þessar fjölskyldur sem tóku lán í erlendri mynt, vegna þess að lánadrottnarnir beinlínis otuðu því að þeim.
Á sínum tíma vildum við breyta okkar lánum í gengistryggð lán, en þjónustufulltrúinn í bankanum okkar mælti mjög á móti því, sagði að slíkt væri aðeins réttlætanlegt ef við fengjum tekjur í erlendri mynt. Ég get seint fullþakkað þessum þjónustufulltrúa fyrir að hafa vit fyrir okkur.
En því miður voru fæstir svona heppnir. Ég veit til þess að bankarnir bókstaflega öttu fólki út í "sparnað" sem þeir sögðu á sínum tíma að væri 100% pottþéttur. Nú situr þetta fólk eftir með sárt ennið og jafnvel engan sparnað.
Nágrannar mínir sögðu mér að þeir hefðu tapað um 10 milljónum á bankahruninu. Þetta er bara venjulegt fólk sem var búið að borga af húsnæðislánum í áratugi, sáu fram á að eiga loksins afgang og fóru að ráði bankans síns og fjárfestu í áhættusæknum sjóðum. Í dag vitum við öll hvert þeir peningar fóru.
En stundum fær maður bara nóg af þessum neikvæðu fréttum. Við hjónin höfum gert það reglulega að kúpla okkur út úr fjölmiðlaumræðunni, bara til þess að missa ekki sjónar á því sem lífið snýst um.
Það snýst um að njóta þess, en samt sem áður get ég ekki að því gert að alltaf læðist að mér vitneskjan um allt það fólk sem á um sárt að binda þessi dægrin og um allt það fólk sem á sök á þessu ástandi, það fólk virðist ekki kunna að skammast sín. Ég hef sagt það áður og segi það enn: ég er döpur yfir því að finna til fyrirlitningar með einhverjum. Það er ekki tilfinning sem ég hef upplifað fyrr en nú eftir bankahrunið.
En ég ber virðingu fyrir íslensku þjóðinni, sem telur ekki eftir sér að vinna óhóflega langan vinnudag til þess að þeirra fólk og allir aðrir geti átt gott líf.
Einhvers staðar á leiðinni rugluðust skilaboð forfeðra okkar til hinnar ráðandi stéttar. Allt í einu snerist allt um að græða sem mest og níðast sem mest á náunganum. Núna virðist sem engin lög nái yfir þessa glæpamenn og enn í dag hreykja þau sig yfir okkur hin, rífa kjaft og hóta málsóknum.
Ég bara skil ekki hvernig þetta fólk getur sofið á nóttunni eða horft framan í börnin sín kinnroðalaust. Því það eru ekki bara börnin okkar sem sitja uppi með byrðarnar, það eru líka börnin þeirra og barnabörn sem munu sitja í súpunni.
En þrátt fyrir allar þessar hörmungar þá veit ég að ég get glaðst yfir ýmsum jákvæðum hlutum á hverjum degi. Stundum er bara svo rosalega erfitt að koma auga á þá.
Ég elska landið mitt og einu sinni var ég stolt af því að vera Íslendingur. Vonandi verður framtíðin þannig. Að við venjulega fólkið munum elska landið okkar og vera stolt af því og allir fjárglæpamennirnir verði þá komnir á bak við lás og slá.
Hvað er eiginlega hámarksdómur fyrir landráð?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fyrir margt löngu þegar ég var enn á barnaskólaaldri ca. 9 ára, sendi mamma mig niður í Málningu og járnvörur sem var staðsett á Laugaveginum. Ekki man ég hvaða dagur var, en ekki gerði neinn ráð fyrir öðru en búðin væri opin.
Geng ég nú inn í búðina og litast um, ekkert fólk var á svæðinu svo ég bara beið. Leið nú allnokkur tími og ég var nú farin að verða smeik, halllóoo, er einhver hérna halllóoo? Enginn svaraði. Nú ekkert var annað til ráða en að fara bara aftur heim, en úpps, báðar dyrnar voru lokaðar og læstar og ekki hægt að opna innan frá nema með lykli. Ég man hvað ég varð rosalega stressuð, en hélt þó ró minni. Rölti um búðina, en þorði ekki inn á lagerinn, því þar var svartamyrkur. Peningakassinn var opinn og þar glitti í þvílík auðæfi í augum níu ára stelpu. Svo rak ég augun í síma og hringdi hið snarasta heim og sagði mínar farir ekki sléttar. Mamma ætlaði varla að trúa því að ég væri að segja satt, en sagðist hringja í lögguna og biðja þá að ná mér út úr húsinu.
Og það varð úr, lögreglan mætti hið snarasta á svæðið, en þeir gátu ekki opnað frekar en ég enda höfðu þeir engin lyklavöld í Málningu og járnvörum. Þá fattaði einn snjall lögregluþjónn upp á því að fyrst þetta væri byggingavöruverslun þá hlyti ég að geta fundið stiga svo ég gæti prílað út um örmjóan glugga fyrir ofan útidyrnar. Ég, spennt að losna úr prísundinni fann stiga og hamar að auki, því augljóst var orðið að berja þyrfti niður einhverja járnkróka sem þarna voru, svo ég myndi nú ekki skerast á hol á útleiðinni.
Þannig að ég prílaði upp stigann og reyndi að troðast út um gluggann og tveir lögrelguþjónar toguðu hraustlega í mig og tóku vingjarnlega á móti mér. Það hafði safnast saman múgur og margmenni þarna við búðina og þegar ég glitti í mömmu í fólksfjöldanum féll mér allur ketill í eld og fór að hágrenja.
En við mamma fengum far heim með löggunni sem var náttúrulega mun meira spennandi.
Búðardyrnar opnar í nótt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.1.2009 | 17:20
Hamingjudagar í "ömmukoti"
Það er orðið allnokkuð síðan ég bloggaði, enda búið að vera mikið að gera undanfarið.
Dóttir mín eignaðist sitt fyrsta barn (og fyrsta ömmubarnið mitt) s.l. miðvikudag, 14. janúar. Hraust og falleg stúlka tæplega 13 merkur og 49 sentimetrar. Litla ljósið okkar er alveg yndisleg og við erum öll í skýjunum yfir fæðingu hennar.
Ég - amman sjálf - var svo lánsöm að fá að vera viðstödd fæðinguna og var og er enn í sæluvímu yfir þessu öllu saman. Dóttir mín stóð sig alveg eins og hetja og var ekkert að hangsa yfir þessu eins og mamma hennar í den. Reyndar lá þeirri litlu svo mikið á að koma í heiminn að ekki gafst tími til þess að gefa mömmunni verkjalyf. En þetta gekk allt saman eins og í sögu og mæðgunum heilsast vel.
Þó er sængurlegan mikið breytt síðan ég átti mín börn. Stelpurnar okkar voru komnar heim 21 klukkustund eftir fæðingu. Að mínu mati er þetta miklu notalegra svona. Þær mæðgur voru í Hreiðrinu og þar er mjög notalegt að vera, næstum bara eins og heima.
En ég er þó ósátt við að konur sem koma á fæðingadeildina þurfa að borga í stöðumæli fyrir bílinn ef þær eru þar á milli 8 til 16 á virkum dögum. Hver ætli sé að hugsa um að borga í stöðumæli þegar stórkostlegasti atburður lífsins stendur yfir. Ég vona bara að Bílastæðasjóður taki tillit til aðstæðna ef fólk fær sekt þarna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.7.2008 | 22:09
Hann á afmæli í dag
Já, strákurinn minn hann Steini á 15 ára afmæli í dag. Mamman fjarri góðu gamni, enda þeir feðgar á Partillecup í Svíþjóð. Það virðist svo ótrúlega stutt síðan hann var bara pínupons en núna er hann vaxinn okkur öllum í fjölskyldunni yfir höfuð og erum við þó ekkert sérstaklega smávaxin.
Dagurinn búinn að vera frábær hjá honum, fór þrisvar í rússibana í Liseberggarðinum. Þar hefði ég viljað vera fluga á vegg, enda drengurinn í meira lagi lofthræddur. Kannski manni takist að draga hann í eitthvað fjör í Tivoli World á Spáni í næstu viku. Ég spennufíkillinn lít á þessar þrjár rússíbanaferðir hans í dag sem mikið þroskamerki. Rússíbanaferðir eru jú alveg frábær spennulosun.
Til hamingju með daginn elsku Steini minn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.6.2008 | 23:15
Íslenskukennsla manna og hunda
Á mínum vinnustað eru nokkuð margir útlendingar. Sumir eru búnir að búa lengi hér á landinu kalda, búnir að aðlagast nokkuð vel og skarta jafnvel tveimur vegabréfum. Þeir tala yfirleitt ágæta íslensku og ambögurnar hjá þeim eru bara krúttlegar, líklega svipaðar og ef ég hefði flutt til Rússlands fyrir 10 árum og þættist kunna rússnesku lýtalaust. Svo eru aðrir starfsmenn á svæðinu sem hafa dvalið skemur og jafnvel ekki hugsað sér að ílendast. Þeir tala ekki íslensku og hafa ekki hugsað sér að læra hana, enda ekki þörf á því þar sem allir tala ensku við þá. Þó vil ég taka fram að allflestir þeirra tala bjagaða ensku og ég er farin að reka mig á að ég er farin að tala jafn bjagaða ensku við þá. Þrátt fyrir að hér fyrr á árum talaði enskumælandi fólk um að ég væri mjög fær í ensku, m.v. að það væri ekki mitt móðurmál.
Monica samstarfskona mín sem er frá landi sunnarlega í Evrópu hefur ekki hugsað sér að læra íslensku þrátt fyrir hvatningu mína. Hún segir að hennar (bjagaða) enska dugi henni ágætlega. Ég er gjörn á að skella á hana einhverjum íslenskum setningum, sem hún apar svo eftir með frekar döprum árangri. T.d. var setningin "gjörðu svo vel" henni algjörlega óyfirstíganleg. Og nafnið mitt, ó, jú hún var nú góð með sig að geta sagt það rétt, þangað til að hún fattaði að það beygðist, Sigrún, Sigrúnu, Sigrúnu til Sigrúnar, þá féllust henni hendur og ég held að hún sé að huga að brottför fljótlega frá landinu bláa, þetta var meira en hún þoldi.
Mér hefur ekki tekist að pikka upp margar línur frá samstarfsmönnum mínum, enda er um "allra þjóða kvikindi" að ræða, svo líklega færi allt í flækju ef ég færi að læra ca 5 - 6 tungumál í einu. En nokkrar setningar hef ég tileinkað mér, þó ég hafi ekki hátt um það.
Það er annað mál með hundinn minn. Honum gengur ágætlega að læra íslensku. Hann skilur nú þegar eftirfarandi orð, eftir því sem ég best veit:
Freddý - nafnið hans
mamma, pabbi, Sara, Steini, amma og allnokkur manna- og dýranöfn til viðbótar.
Síðan skilur hann vel orðin nammi (líklega hélt hann að það væri nafnið hans, þegar þjálfun hans stóð sem hæst), matur, pylsa, pulsa (ath. það er tvennt ólíkt), lifrarpylsa, bein og nýjasta orðið hans á þessu sviði er kæfa. Ég vil benda á að hann verður alveg extra flottur og ljúfur þegar þessi orð eru nefnd og líklegur til þess að sýna hinar ýmsu kúnstir til þess að þóknast viðmælanda sínum.
Svo skilur hann, sittu, stattu, sæll, liggðu, dansa og vertu fínn og hann er svo fjölhæfur að hann skilur meira að segja sit (sem er enska útgáfan) og set dig ned paa röven (sem er danska útgáfan). Ég vil taka það fram að hann skilur þessi orð mun betur ef e-h hlutum sem nefndir eru í fyrri málsgrein er veifað fyrir framan trýnið á honum.
Hann lyftist allur og brosir sínu blíðasta ef honum er boðið út, en verður flóttalegur, með rófuna á milli fóta ef honum er boðið í bað. Þegar baðið er afstaðið þá er hann montinn með sig, en er ekki búinn að fatta setninguna: "Ekki hrista þig", sem þýðir að baðherbergið fer í bað um leið og hann.
Ljúft þykir honum að heyra einhvern bjóða honum að koma í holu, þá kemur á hann sælusvipur og hann stekkur upp í sófa og hringar sig til fóta hjá viðkomandi. Hann gerir ekki greinarmun á holu og pabbaholu, en þar er honum alveg bannað að vera og hefur ósjaldan lent í vandræðum þegar hann hefur komið sér notalega fyrir þar. Það er annað mál með mömmuholu, þar er mun ljúfara að kúra og meiri friður. Hann skilur vel orðin færðu þig, upp, út, niður, en hann virðist ekki skilja orðið hættu. Alla vega ekki fyrr en of seint. Hann verður allur uppveðraður ef minnst er á að fara í bílinn, en heldur verður hann niðurbeygður og lúpulegur þegar hann er settur í hundaöryggisbeltið, það er hans mesta niðurlæging.
Hann veðrast allur upp ef einhver býður upp á knús eða svo maður tali nú ekki um koss, þá leggur hann trýnið sitt við vanga manns, en aðeins eitt augnablik, ekki til í að eyða miklum tíma í svoleiðis pjatt.
En best af öllu er að hann skilur orðin duglegur og sætastur (alveg eins og strákurinn minn) og sýnir alla sínu bestu takta þegar einhver nefnir ofangreind orð.
Hann breytist í vígalegan varðhund þegar hann heyrir orðið kisa og bara við það að heyra í bjöllum nágrannakattanna missir hann heyrnina og gleymir algjörlega hvað nei, hættu, pylsa, pulsa og öll hin orðin þýða.
En af þessu öllu hef ég nú áttað mig á því að það er ekki svo erfitt að kenna einhverjum íslensku, það verða bara að vera verðlaun í boði og klapp á bakið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.5.2008 | 23:05
Æskuminning um jarðskjálfta.
Ég er hrædd við jarðskjálfta, alveg skíthrædd og fólkið á Suðurlandi á alla mína samúð í þeim hremmingum sem það gengur í gegnum nú um stundir.
En einu get ég hlegið að í dag, það er að segja fyrstu reynslu minni af jarðskjálfta, þó ég hafi fyllst skelfingu þegar það gerðist.
Víkur nú sögu nokkra áratugi aftur í tímann, ég var bara lítið stelpuskott og móðir mín með afbrigðum morgunsvæf. Þennan morgunn, eins og flesta aðra morgna vaknaði ég á undan mömmu og var búin að reyna ýmsar kúnstir til þess að vekja hana. Ég hoppaði og skoppaði í rúminu, knúsaði hana og ég hef líklegast hef ég gerst nokkuð hávær. Það var alveg sama hvað ég reyndi að vekja hana, svarið var alltaf það sama "ég er að koma" og á eftir fylgdi löööng hrota.
Þá allt í einu ríður yfir mikill jarðskjálfti, húsið nötraði, myndir duttu af veggjum og leirtau skrölti. En mamma mín, hún rétt rumskaði og tautaði upp úr svefnrofunum, "hættu að hrista rúmið krakki, ég er að koma" Og ég alveg skelfingu lostin, galaði á háa céinu "ég er ekki að hrista rúmið, það er einhver að hrista húsið" og með það sveif ég í einu stökki upp í rúm og lenti á koddanum hjá mömmu (það var fyrsta flugferðin mín). Það þarf ekki að orðlengja það að mamma glaðvaknaði á stundinni og þurfti nú að róa niður litla nöldursegginn sinn.
En eftir það var lengi haft á orði í minni fjölskyldu um svefnpurrkur, að það þyrfti nú jarðskjálfta til að mjaka viðkomandi úr bólinu og vitnað til mestu svefnpurrku fjölskyldunnar, sem fyrir margt löngu er horfin yfir móðuna miklu, blessuð sé minning hennar.
Enn er ég mjög hrædd við jarðskjálfta, það er víst ekkert sem eldist af manni, enda óhugguleg upplifun. Ég vona bara að þessi ósköp þarna fyrir austan séu yfirstaðin.
Enn og aftur óska ég fórnarlömbum jarðskjálftans alls hin besta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2008 | 00:20
Systur á hækjum...
Ég fór í smáaðgerð á hné s.l. föstudag og þurfti að styðjast við hækjur í tvo - segi og skrifa tvo heila daga. Ekki gekk það nú vandræðalaust fyrir sig og má segja að ég hafi síður en svo verið tíguleg með hjálpartækin mín. Núna staulast ég um haltrandi, en sleppti hækjunum, þar sem ég taldi líklegra að ég myndi ná mér fyrr án þeirra. Með þeim myndi ég líklegast endasteypast á kollinn og þurfa á frekari læknishjálp að halda og líklega á einhverjum öðrum líkamspörtum en hné. Ég hafði alveg sérstakar áhyggjur af toppstykkinu í þessu sambandi.
Því varð mér hugsað til Gústu minnar yndislegu systur sem fór í aðgerð á ökkla í byrjun október í fyrra (minnir mig) og er búin að vera á hækjum síðan, reyndar mun lengur ef út í það er farið, því hún þurfti að bíða svo lengi eftir aðgerðinni að ég held að hún sé búin að vera með hækjurnar í 2 - 3 ár. Núna er hún á þessum fínu túrbóhækjum, sem eru með handfangi sem er sérstaklega lagað að lófanum og alveg alsæl með græjurnar. Þó hef ég grun um að mest af öllu langi hana til þess að vera í þannig aðstöðu að hún geti kastað þeim út í hafsauga og aldrei þurft að berja þær augum framar. Ég vona hennar vegna að það gerist fljótlega.
S.l. sunnudag fór ég í útskriftarveislu hjá Guðna Frey bróðursyni mínum og þangað mætti ég með hækjuna mína - var þá búin að kasta hækju tvö í þeirri viðleitni að bjarga áðurnefndu toppstykki. Þar var að sjálfsögðu einnig mætt mín ástkæra, þolinmóða systir á sínum fínu hækjum og ég er ekki frá því að hún hafi verið nokkuð sátt að einhver annar en hún væri mætt á svæðið á hækjum.
Margir urðu hissa á því að ÉG væri á hækjum, en enginn kippti sér upp við það að Gústa blessunin væri á hækjum, enda allir í fjölskyldunni fyrir löngu búnir að venjast því að hún ferðist kona ekki einsömul. Ég verð þó að segja að mér finnst kominn tími til þess að Guð og góðir vættir beini athygli sinni að henni, aumki sig yfir hana, svo hún geti fljótlega og helst í gær byrjað að dansa tangó og ballett. Ekki það að hún hafi lagt slíkan dans fyrir sig hingað til, en ég tel líklegt að hún geri eitthvað róttækt þegar hún fer að ganga á sínum tveimur jafnfljótum.
En fljótlega mun ég geta sett inn myndir á bloggið mitt og af því mun Gústa systir eiga allan heiðurinn. Í viðleitni sinni til að halda sönsum hefur hún fundið upp á ýmsu til að stytta sér stundir. Mest notar hún tímann í lestur, enda mesti lestrarhestur sem ég þekki, en það dugar ekki til. Og nú nýlega tók hún sig til og skannaði allar ljósmyndir sem til voru á heimili hennar, lagaði sumar sem voru orðnar gamlar og lúnar, en fór ekki út í alvarlegar sögufalsanir eftir því sem ég best veit. Nú, hún var ekki lengi að klára eigið ljósmyndasafn, túrbókonan á túrbóhækjunum, svo núna er hún byrjuð á mínum ljósmyndum. Þannig að innan skamms verðum ég og mínir orðin stafræn og það er allt henni Gústu minni að þakka og þá styttist í að ég skelli myndum inn á bloggið mitt.
Góðan bata Gútta mín....
Næst þegar hana vantar eitthvað að gera ætla ég að segja henni að fara að blogga, enda hún orðin vön að sitja við tölvuna og skemmtilegur penni getur hún verið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)