Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Harmasaga - heilbrigðiskerfið

Ég var 16 ára gömul þegar móðir mín dó, eftir langvinn veikindi. Það var árið 1977 löngu fyrir tíma allra tölva.  Ég var bara unglingur á þeim tíma og e.t.v. gerði ég mér ekki grein fyrir alvöru málsins, vegna þess að systkini mín sáu um alla hluti sem fólk gengur í gegnum við þessar aðstæður og pössuðu vel upp á mig, enda var ég búin að vera í þeirra umsjá í 1 - 2 ár.

En ég var eldri og hélt ég reyndari þegar pabbi minn veiktist 12 árum seinna.  En ég lét heilbrigðiskerfið svo sannarlega snúa mér í endalausa hringi og gerði allt sem mér var sagt. 

Kannski er best að byrja þessa sögu á því að systkin mín sem reyndust mér svo vel  við fráfall móður okkar komu ekki mikið við sögu í veikindum föður míns, enda áttu þau annan föður, en þau reyndust mér samt vel og hafa alltaf gert.

Á þessum tíma var ég einstæð móðir með eitt barn.  Faðir minn veiktist alvarlega við það sem átti að heita lítilsháttar skurðaðgerð. Reyndar var það svo að í aðgerðinni dó hann, en var endurlífgaður á skurðarborðinu.  

Mikið lifandis skelfing var ég hamingjusöm yfir því að hafa ekki misst hann frá okkur, en sú tilfinning átti eftir að breytast á næstu mánuðum og árum.  Við tóku margir mánuðir með miklum kvölum fyrir elsku pabba minn og endalausum sjúkrahúsheimsóknum. Þó fátt benti til þess þá vonaði ég alltaf að hann myndi ná sér, en því miður varð raunin ekki sú.

Á þessum tíma snerist allt mitt líf í kringum veikindi föður míns.  Pabbahelgar urðu að alvöru pabbahelgum, dóttir mín fór til pabba síns og pabbi minn kom til mín, en hann sem alltaf hafði elskað dóttur mína meira en lífið sjálft, þoldi nú allt í einu ekki litlu stelpuskottuna sem alltaf hafði verið svo hænd að afa gamla. 

Allan þennan tíma hafði pabbi fulla hreyfigetu og lét sig oft og iðulega hverfa af krabbameinsdeildinni, þrátt fyrir stíft lyfjaprógramm.  Þá var alltaf hringt í mig og mér bara sagt að hann væri horfinn.  Ég vissi hvar hann væri að finna og sótti hann, en hann fór alltaf til vinar síns, en einu sinni fannst hann ekki þar.  Ég var verulega áhyggufull, um var að ræða fársjúkan mann sem þurfti að fá morfín í æð mörgum sinnum á dag, en ég fékk enga hjálp, þrátt fyrir að ég hefði farið til lögreglunnar með mynd af honum og óskað eftir því að lýst yrði eftir honum í fjölmiðlum. 

Mér var sagt að hann væri sjálfráða og það væri ekki mitt mál að skipta mér af.  En lögreglan leitaði sem betur fer að honum áfram og að lokum fannst hann, sárþjáður.  Hann hafði tékkað sig inn á Herkastalann og þar hafði hann dvalið í rúman sólarhring.  Guð blessi þá, þeir sendu mér aldrei rukkun fyrir dvöl hans þar.

Eftir þetta var hann lagður inn á aðra deild, þaðan sem hann gæti ekki labbað út.  Þeir lokuðu hann inni á geðdeild hjá fólki sem var fullkomlega heilbrigt líkamlega,  en hann hafði enga heilsu til þess að nálgast mat svo við ættingjarnir þurftum að sjá til þess að hann nærðist.  Þvílík skömm fyrir spítalann.

Undir lokin í lífi hans var hann sendur til mín vegna þess að ekki var pláss fyrir hann á spítalanum.  Ég var að reyna að vinna eftir bestu getu, en heilbrigðis/félagsmálayfirvöldum þótti ekkert óeðlilegt við það að hann væri hjá mér í tveggja herbergja íbúð, þeir sendu til okkar konu til þess að sjá um heimilishaldið, sú var mexíkönsk, ágætis kona, en því miður skildi pabbi ekki orð sem hún sagði, heimahjúkrun kom tvisvar á dag, en að öðru leyti sá ég um það sem þurfti að gera og dóttir mín sem þá var 10 ára gömul. 

Á ákveðnum tímapunkti tilkynnti ég spítalanum að ég gæti þetta því miður ekki lengur, enda vann ég alltaf fullan vinnudag til að sjá mér og dóttur minni farborða og þau voru nú ekki lengi að redda því fyrir mig. 

Sigrún, við erum búin að fá pláss fyrir pabba þinn í Hveragerði, getur þú ekki skutlað honum þangað?. 

Ég hélt nú ekki, gerið þið ykkur grein fyrir því að faðir minn er dauðveikur, hann á ekki heima á heilsuhæli í Hveragerði.

Sjúkrahúsið:  Hann mun örugglega hressast við það að fara í þangað.

Svo ég tók mér frí í vinnu, sótti Söru mína á skólann, fór heim og dröslaði pabba út í bíl.  Síðan keyrðum við saman öll þrjú austur á Heilsuhælið í Hveragerði.  Þegar þangað var komið, fór ég og tilkynnti að ég væri komin með A.K. sem þau ættu von á.  Mér var vel tekið, en þegar læknirinn á heilsuhælinu sá ástandið á elsku pabba mínum, sagði hann við mig: Hvað ertu að þvælast með manninn alla leið hingað, sérðu ekki að hann er dauðveikur.

Ég gafst algjörlega upp á þeirri stundu, fór að hágrenja og heimtaði að þau fyrir austan hringdu á sjúkrabíl til þess að flytja hann í bæinn aftur, enda hefði ég verið á móti þessu ferðalagi frá upphafi og aldrei verið sátt við þessa tillögu læknisins á Landsspítalanum.

Læknirinn í Hveragerði lét sig ekki og mér var gert að keyra pabba minn dauðveikan inn á Landsspítala. Þó ég væri ósátt við það gerði ég það sem mér var sagt, en bað þau í Hveragerði samt um að hringja á undan mér til að láta vita að hann væri að koma. 

Ég keyrði í bæinn hágrátandi, eins og ég væri með brothætt egg í bílnum og veitti því eftirtekt þegar bílar fóru fram úr mér að fólkið í hinum bílunum leit undrandi á farþegann minn - það var eins og ég væri með lík í farþegasætinu.  Þegar ég mætti í Kringluna á Landsspítalanum til þess að láta vita af því að við værum komin, kom mjög fljótt hjúkrunarfræðingur hlaupandi með hjólastól á móti okkur og hvað haldið þið að hún hafi sagt við okkur, örmagna, úttaugaða dóttur, skelfingu lostið barnabarn og dauðvona föður.  "Hvað varstu eiginlega að hugsa með því að þvæla honum pabba þínum austur í Hveragerði"?  Þá var mér allri endanlega lokið, fór að hágrenja aftur og þar með missti ég endanlega trú á því að um væri að ræða eitthvað manneskjulegt í íslensku heilbrigðiskerfi.

Minn elskaði faðir dó nokkrum dögum seinna og ég sakna hans alltaf.

Reyndar missti ég vinnuna út af öllu þessi veseni með pabba minn.  Og yfirmaðurinn minn gekk svo langt að hann sagði við mig að ég væri bara hrikalega móðursjúk, systir hans hefði nú dáið árið áður og ekki hefði hann þurft að vera svona lengi frá vinnu. Hann gleymdi að minnast á það að hún átti bæði mann og börn, en pabbi hafði bara mig og dóttur mína.  Hann tók ekkert mark á því að ég ætti veikan ættingja og þrátt fyrir hin ýmsu vottorð frá læknum föður míns kvartaði hann endalaust undan fjarvistum mínum og þegar ég hringdi loks í hann til þess að segja honum að pabbi minn væri dáinn, þá sagði hann bara: jæja, er hann loksins farinn.  

Fyrir mér var það mikill harmur en mér fannst bara eins og honum létti, líklega hugsaði hann : ætlarðu þá loksins að mæta í vinnuna. Hann sagði reyndar aldrei að hann samhryggðist mér. Ég lét aldrei sjá mig þar aftur.

Þessi maður var þjóðþekktur á sínum tíma vegna frægs sakamáls og fékk mikla samúð þjóðarinnar vegna þess að upp komst um rangar sakagiftir gagnvart honum í því máli.  En samúð átti hann enga gagnvart öðrum.

En í mínum huga veit ég það eitt, ég reyndi eins og ég gat að létta föður mínum síðustu skrefin á þessari jörð. 

Ég hugsa um pabba minn á hverjum degi, ég sakna hans á hverjum degi, ég nefndi son minn eftir honum.  Elsku pabbi minn, ég vildi óska þess að þú værir hérna hjá okkur enn, við söknum þín alltaf.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband