28.5.2008 | 00:20
Systur á hækjum...
Ég fór í smáaðgerð á hné s.l. föstudag og þurfti að styðjast við hækjur í tvo - segi og skrifa tvo heila daga. Ekki gekk það nú vandræðalaust fyrir sig og má segja að ég hafi síður en svo verið tíguleg með hjálpartækin mín. Núna staulast ég um haltrandi, en sleppti hækjunum, þar sem ég taldi líklegra að ég myndi ná mér fyrr án þeirra. Með þeim myndi ég líklegast endasteypast á kollinn og þurfa á frekari læknishjálp að halda og líklega á einhverjum öðrum líkamspörtum en hné. Ég hafði alveg sérstakar áhyggjur af toppstykkinu í þessu sambandi.
Því varð mér hugsað til Gústu minnar yndislegu systur sem fór í aðgerð á ökkla í byrjun október í fyrra (minnir mig) og er búin að vera á hækjum síðan, reyndar mun lengur ef út í það er farið, því hún þurfti að bíða svo lengi eftir aðgerðinni að ég held að hún sé búin að vera með hækjurnar í 2 - 3 ár. Núna er hún á þessum fínu túrbóhækjum, sem eru með handfangi sem er sérstaklega lagað að lófanum og alveg alsæl með græjurnar. Þó hef ég grun um að mest af öllu langi hana til þess að vera í þannig aðstöðu að hún geti kastað þeim út í hafsauga og aldrei þurft að berja þær augum framar. Ég vona hennar vegna að það gerist fljótlega.
S.l. sunnudag fór ég í útskriftarveislu hjá Guðna Frey bróðursyni mínum og þangað mætti ég með hækjuna mína - var þá búin að kasta hækju tvö í þeirri viðleitni að bjarga áðurnefndu toppstykki. Þar var að sjálfsögðu einnig mætt mín ástkæra, þolinmóða systir á sínum fínu hækjum og ég er ekki frá því að hún hafi verið nokkuð sátt að einhver annar en hún væri mætt á svæðið á hækjum.
Margir urðu hissa á því að ÉG væri á hækjum, en enginn kippti sér upp við það að Gústa blessunin væri á hækjum, enda allir í fjölskyldunni fyrir löngu búnir að venjast því að hún ferðist kona ekki einsömul. Ég verð þó að segja að mér finnst kominn tími til þess að Guð og góðir vættir beini athygli sinni að henni, aumki sig yfir hana, svo hún geti fljótlega og helst í gær byrjað að dansa tangó og ballett. Ekki það að hún hafi lagt slíkan dans fyrir sig hingað til, en ég tel líklegt að hún geri eitthvað róttækt þegar hún fer að ganga á sínum tveimur jafnfljótum.
En fljótlega mun ég geta sett inn myndir á bloggið mitt og af því mun Gústa systir eiga allan heiðurinn. Í viðleitni sinni til að halda sönsum hefur hún fundið upp á ýmsu til að stytta sér stundir. Mest notar hún tímann í lestur, enda mesti lestrarhestur sem ég þekki, en það dugar ekki til. Og nú nýlega tók hún sig til og skannaði allar ljósmyndir sem til voru á heimili hennar, lagaði sumar sem voru orðnar gamlar og lúnar, en fór ekki út í alvarlegar sögufalsanir eftir því sem ég best veit. Nú, hún var ekki lengi að klára eigið ljósmyndasafn, túrbókonan á túrbóhækjunum, svo núna er hún byrjuð á mínum ljósmyndum. Þannig að innan skamms verðum ég og mínir orðin stafræn og það er allt henni Gústu minni að þakka og þá styttist í að ég skelli myndum inn á bloggið mitt.
Góðan bata Gútta mín....
Næst þegar hana vantar eitthvað að gera ætla ég að segja henni að fara að blogga, enda hún orðin vön að sitja við tölvuna og skemmtilegur penni getur hún verið.
Athugasemdir
Hæ.
Er ekki viss um að ég sé nægilega góður penni til að halda úti svona blogg síðu. Er miklu frekar til í að lesa þær sem ætti ekki að koma nokkrum manni sem til þekkir á óvart. Mikil lestrarhestur en pennalöt með afbrigðurm.
Gústa (IP-tala skráð) 31.5.2008 kl. 10:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.