Æskuminning um jarðskjálfta.

Ég er hrædd við jarðskjálfta, alveg skíthrædd og fólkið á Suðurlandi á alla mína samúð í þeim hremmingum sem það gengur í gegnum nú um stundir.

En einu get ég hlegið að í dag, það er að segja fyrstu reynslu minni af jarðskjálfta, þó ég hafi fyllst skelfingu þegar það gerðist.

Víkur nú sögu nokkra áratugi aftur í tímann, ég var bara lítið stelpuskott og móðir mín með afbrigðum morgunsvæf.  Þennan morgunn, eins og flesta aðra morgna vaknaði ég á undan mömmu og var búin að reyna ýmsar kúnstir til þess að vekja hana.  Ég hoppaði og skoppaði í rúminu, knúsaði hana og ég hef líklegast hef ég gerst nokkuð hávær.  Það var alveg sama hvað ég reyndi að vekja hana, svarið var alltaf það sama "ég er að koma" og á eftir fylgdi löööng hrota.

Þá allt í einu ríður yfir mikill jarðskjálfti, húsið nötraði, myndir duttu af veggjum og leirtau skrölti.  En mamma mín, hún rétt rumskaði og tautaði upp úr svefnrofunum, "hættu að hrista rúmið krakki, ég er að koma"  Og ég alveg skelfingu lostin, galaði á háa céinu "ég er ekki að hrista rúmið, það er einhver að hrista húsið" og með það sveif ég í einu stökki upp í rúm og lenti á koddanum hjá mömmu (það var fyrsta flugferðin mín).  Það þarf ekki að orðlengja það að mamma glaðvaknaði á stundinni og þurfti nú að róa niður litla nöldursegginn sinn.

En eftir það var lengi haft á orði í minni fjölskyldu um svefnpurrkur, að það þyrfti nú jarðskjálfta til að mjaka viðkomandi úr bólinu og vitnað til mestu svefnpurrku fjölskyldunnar, sem fyrir margt löngu er horfin yfir móðuna miklu, blessuð sé minning hennar.

Enn er ég mjög hrædd við jarðskjálfta, það er víst ekkert sem eldist af manni, enda óhugguleg upplifun.  Ég vona bara að þessi ósköp þarna fyrir austan séu yfirstaðin.

Enn og aftur óska ég fórnarlömbum jarðskjálftans alls hin besta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband