28.3.2009 | 23:50
Furðuferðasaga númer 3 - Sveðja í lestinni
Furðuferðasaga þrjú.
Ég er ekki mjög víðförul kona, en skrapp til kóngsins Köben síðustu helgi og þá rifjaðist upp fyrir mér nokkrar sögur frá fyrri heimsóknum þangað.
Í síðustu dvöl minni í Kaupmannahöfn dáðist ég mjög að samgöngukerfi þeirra þar í borg og þá rifjaðist upp fyrir mér að hér um árið þegar við Sara mín vorum túristar í Köben skruppum við á Bakkann einn daginn. Við tókum strætó á svæðið og hestvagn í gegnum skóginn, alveg yndislegur dagur sem við eyddum í að fara í hin ýmsu tívolítæki og nutum lífsins.
Það var þar sem Sara mín varð fyrir þeirri óheppni að fíll steig ofan á fótinn á henni. Reyndar ekki stór fíll, hún (fíllinn) hét Tanja og var á fílaunglingsaldri, en alveg örugglega ekki gott fyrir sex ára hnátu að verða undir táningsfíl.
Við ákváðum að taka lestina heim á Hovedbanegarden og sú sem við náðum var frekar seint um kvöldið. Settumst við mæðgurnar nú í sæti þar sem tvö sætu sneru á móti okkur og líkaði vel. En á næstu stoppistöð lestarinnar kemur inn í vagninn mjög svo óárennilegur gaur og hyggst setjast í sæti beint á móti okkur. Mér leyst nú ekkert sérstaklega vel á kauða, vonaði þó það besta og gerði ráð fyrir því versta, sem rættist reyndar.
Þegar kauði hyggst taka sér sæti, stynur hann allt í einu ámátlega, réttir svo úr sér og dregur ca. 40-50 cm sveðju upp úr buxnastrengnum, sest niður og leggur sveðjuna yfir lærin á sér, en lætur samt ekki mikið á sér bera að öðru leyti.
Ég verð að viðurkenna að þarna fylltist ég skelfingu. Náunginn lét svosem ekki ófriðsamlega, en ég var skelfingu lostin með þennan náunga fyrir framan okkur, en samt þorði ég ekki að flytja okkur til í vagninum.
Ég sagði við Söru mína sem var örmagna af þreytu eftir daginn og skelfingu lostin að við skyldum sitja sem fastast og fara út um leið og flestir færu út úr vagninum.
Ferðin leið nokkrar stoppistöðvar þar sem nokkrar hræður komu inn eða fóru út úr vagninum og ég var stanslaust með augun á þessum skuggalega gaur, en reyndi samt eftir megni að dreifa athygli dóttur minnar frá honum.
Svo kom loksins að því sem ég hafði beðið eftir, flestallir aðrir flykktust út úr lestinni, svo við mæðgurnar ætluðum sko ekki að vera einar með þessum náunga og skokkuðum á eftir liðinu. Í rólegheitum rak skuggalegi gaurinn lestina og eiginlega var ég sannfærð um að hann væri á eftir okkur með sína hræðilegu sveðju.
Í öllu stressinu hafði ég ekki tekið eftir því að við vorum komnar á lestarstöðina okkar, ég var svo upptekin af því að fylgjast með sveðjunni. En þegar út var komið og ég fattaði að við vorum komnar á heimaslóðir tókum við mæðgurnar á rás beint heim á hótel sem var sem betur fer hinu megin við götuna.
Í ferð minni til Köben núna um daginn, um tuttugu árum seinna gat ég ekki annað en dáðst að samgöngukerfinu þar. Allir strætóar og lestir sem við fórum í voru mjög hrein, fljótlegt var að komast á milli staða og verðið var mjög sanngjarnt. Ef samgöngur á stór-Reykjavíkursvæðinu væru sambærilegar myndi ég mjög líklega nýta mér þær. En eins og staðan er í dag tekur mig yfir 60 mínútur að fara með strætó í vinnu á meðan ég er 15-20 mínútur að keyra, þá held ég mig frekar við bílinn. Og losna við hinar ýmsu hrellingar sem geta komið upp á við að nota almenningssamgöngur s.b.r. söguna hér að ofan.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.