7.6.2009 | 00:25
Oftast er lífið ljúft og þá er ástæða til þess að kætast
Það má segja að tilvera okkar Íslendinga kútveltist þessa dagana, en lífið gengur sinn vanagang hér í mÖmmukoti, þrátt fyrir allt.
Fjölskyldan mín dafnar sem aldrei fyrr, unglingurinn að útskrifast úr 10. bekk og með fyrirmyndareinkunnir ef ég þekki hann rétt. Þó á það eftir að koma í ljós, en ég ber fullt traust til míns unglings og veit að hann mun standa sig vel. Útskrifarferðin hans afstaðin og hann var dreginn í sumarvinnu á sama klukkutíma og hann lenti í bænum eftir Þórsmerkurferðina. Það var þreyttur stráklingur sem mætti allt of seint í matinn í gærkvöldi, en að launum fékk hann þessa fínu heimabökuðu pizzu og að sofa rækilega frameftir í dag.
Barnabarnið mitt sem er nota bene nafna mín, mér til mikillar hamingju dafnar vel. Loksins er litla píslin okkar farin að fá alvöru mat og það má sjá að henni lá á, því hún tekur hraustlega við öllu og hefur braggast alveg ótrúlega vel síðustu vikur. Áður var hún bara óttalega mikil títla, eiginlega algjört smábarn, en núna er hún bara glöð og broshýr dama sem sáldrar í kringum sig gleði og hamingju.
Það er ekki langt í að hún fari að skríða, þó hún sé aðeins tæplega fimm mánaða þá er hún að myndast við að tylla sér á fjóra fætur. Mér er minnisstætt að mamma hennar var með afbrigðum fljót að öllu og forvitið barn og fylgdist vel og vandlega með öllu sem gerðist í kringum sig. Og fyrstu jólin hennar skreið hún í fyrsta skipti, rúmlega sex mánaða. Við settum hana á gólfið langt frá jólatrénu og sú stutta skreið af stað til þess að skoða alla þessa litskrúðugu pakka og fékk að tæta aðeins í þeim að launum.
Mér þykir þó súrt í broti að dóttir mín sem er einstæð móðir fær ekki nema sex mánaða fæðingarorlof. Giftir foreldrar fá níu mánaða orlof og eiga að skipta því á milli sín. Við vitum þess þó mörg dæmi að pabbarnir hafa samið við atvinnurekendur sína um að skrá sig í fæðingarorlof, en vinna samt, sumir hafa jafnvel skráð mömmuna í vinnu í sinn stað, en mætt í vinnu hvern dag og mamman heima með börn og buru.
Þetta er alveg hrikalega ósanngjarnt gagnvart einstæðum mæðrum og eins og margt annað í þessu þjóðfélagi er svona svindl látið viðgangast, en börn einstæðra mæðra sitja í súpunni.
Það má svo sannarlega segja að við njótum góðs af því að heimasætan og ömmustelpan búi hérna hjá okkur. Heimasætunni fellur aldrei verk úr hendi og við höfum varla unnið handtak síðan þær fluttu í kotið (ég verð þó að segja hér sjálfri mér til varnar að oftast nær sé ég um að versla og elda) En ég t.d. sem á að heita húsmóðirin á þessum bæ finn hjá mér sterka þörft til þess að hrópa tilkynningar um allt hús ef ég þríf klósettið eða tek úr uppþvottavélinni. En e.t.v er það fulllangt gengið þegar húsmóðirin spyr heimasætuna hvort hún megi setja í þvottavél. Það er ekki hægt kvarta yfir svona hreingerningaóðum heimilismeðlimi. og ekki kvarta ég, né nokkur á þessu heimili. Það er bara ótrúlega endalaust notalegt að fá að hafa þær mæðgur hérna hjá okkur, fá að fylgjast með daglegum þroska Sigrúnar Evu og jafnvel einstaka sinnum að hjálpa smá til með litla gullmolann okkar.
Í sumar ætlum við fjölskyldan að ferðast um landið með nýja vagninn okkar í eftirdragi. Það verður samt líklega ekki neinn ódýr túr, því líklegast förum við á tveimur bílum svo nóg pláss sé fyrir mannfólk, hund, barnakerru og ýmislegt dót. Það er af sem áður var þegar fimm til sex manns var troðið í Folksvagen ásamt viðlegubúnaði og nesti, en þannig var það í minni æsku. Þá voru sumir meira bílveikir en aðrir, en almennur pirringur í gangi vegna þrengslanna.
Senn líður að því að heimasætan þarf að fara að vinna aftur og þá er amman að hugsa um að hliðra til í sinni vinnu svo litla skotttið þurfi ekki að byrja lífið á óendanlega löngum vinnudegi. Kannski afi taki nokkrar vaktir á móti ömmunni og þá ætti þetta ekki að verða svo rosalega mikil umskipti fyrir litlu prinsessuna okkar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.