Hugleiðing

Í hvirfilbyljum síðustu mánaða gleyma sumir því sem dýrmætast er.  Að ættingjar og vinir hafi það gott og að manns nánasta fjölskylda sé þokkalega sátt við tilveruna. Það skiptir líklega mestu þegar öllu er á botninn hvolft.

Lífið er ekki bara til þess að svekkja sig á.  Á þessum tímum er auðvelt að gleyma sér í ergelsi yfir því ástandi sem örfáir aðilar hafa kallað yfir þessa þjóð.

En við þurfum líka að líta á björtu hliðarnar. 

T.d. er ég afar þakklát yfir því að tengdó er nú þokkalega hress eftir langan veikindakafla í vetur.

Að drengurinn minn fékk 8,7 í meðaleinkunn upp úr tíunda bekk. 

Að dóttir mín og dótturdóttir búi hérna hjá okkur og við fáum að njóta þess að fylgjast með þroska litlu nöfnu minnar. Ömmuljósið vekur okkur broshýr á morgnana og þá er ekki annað hægt en ganga brosandi mót nýjum vinnudegi.

Að ættingjar mínir og vinir hafi komist þokkalega frá þessu hræðilega bankahruni,  þó skuldabyrðar okkar allra hafi þyngst um ókomna framtíð, virðist sem við öll munum ráða við þær með auknu aðhaldi og sparsemi.

En ég veit að svo er ekki raunin hjá mörgum fjölskyldum þessa lands og ég hugsa til þeirra á hverjum einasta degi. Mér finnst óþolandi til þess að hugsa að svo margir hafi tapað umtalsverðum fjárhæðum vegna bankahrunsins og jafnvel öllum sínum eignum.  Allar þessar fjölskyldur sem tóku lán í erlendri mynt, vegna þess að lánadrottnarnir beinlínis otuðu því að þeim. 

Á sínum tíma vildum við breyta okkar lánum í gengistryggð lán, en þjónustufulltrúinn í bankanum okkar mælti mjög á móti því, sagði að slíkt væri aðeins réttlætanlegt ef við fengjum tekjur í erlendri mynt.  Ég get seint fullþakkað þessum þjónustufulltrúa fyrir að hafa vit fyrir okkur.

En því miður voru fæstir svona heppnir.  Ég veit til þess að bankarnir bókstaflega öttu fólki út í "sparnað" sem þeir sögðu á sínum tíma að væri 100% pottþéttur.  Nú situr þetta fólk eftir með sárt ennið og jafnvel engan sparnað. 

Nágrannar mínir sögðu mér að þeir hefðu tapað um 10 milljónum á bankahruninu. Þetta er bara venjulegt fólk sem var búið að borga af húsnæðislánum í áratugi, sáu fram á að eiga loksins afgang og fóru að ráði bankans síns og fjárfestu í áhættusæknum sjóðum.  Í dag vitum við öll hvert þeir peningar fóru.

En stundum fær maður bara nóg af þessum neikvæðu fréttum. Við hjónin höfum gert það reglulega að kúpla okkur út úr fjölmiðlaumræðunni, bara til þess að missa ekki sjónar á því sem lífið snýst um.

Það snýst um að njóta þess, en samt sem áður get ég ekki að því gert að alltaf læðist að mér vitneskjan um allt það fólk sem á um sárt að binda þessi dægrin og um allt það fólk sem á sök á þessu ástandi, það fólk virðist ekki kunna að skammast sín.  Ég hef sagt það áður og segi það enn:  ég er döpur yfir því að finna til fyrirlitningar með einhverjum.  Það er ekki tilfinning sem ég hef upplifað fyrr en nú eftir bankahrunið.  

En ég ber virðingu fyrir íslensku þjóðinni, sem telur ekki eftir sér að vinna óhóflega langan vinnudag til þess að þeirra fólk og allir aðrir geti átt gott líf.

Einhvers staðar á leiðinni rugluðust skilaboð forfeðra okkar til hinnar ráðandi stéttar. Allt í einu snerist allt um að græða sem mest og níðast sem mest á náunganum.  Núna virðist sem engin lög nái yfir þessa glæpamenn og enn í dag hreykja þau sig yfir okkur hin, rífa kjaft og hóta málsóknum.

Ég bara skil ekki hvernig þetta fólk getur sofið á nóttunni eða horft framan í börnin sín kinnroðalaust.  Því það eru ekki bara börnin okkar sem sitja uppi með byrðarnar, það eru líka börnin þeirra og barnabörn sem munu sitja í súpunni.

En þrátt fyrir allar þessar hörmungar þá veit ég að ég get glaðst yfir ýmsum jákvæðum hlutum á hverjum degi.  Stundum er bara svo rosalega erfitt að koma auga á þá.

Ég elska landið mitt og einu sinni var ég stolt af því að vera Íslendingur.  Vonandi verður framtíðin þannig.  Að við venjulega fólkið munum elska landið okkar og vera stolt af því og allir fjárglæpamennirnir verði þá komnir á bak við lás og slá.

Hvað er eiginlega hámarksdómur fyrir landráð?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Tvær dætur mínar hafa tapað á bankahruninu önnur tók bílalán í erlendri mynt, hin keypti íbúð með 90% láni frá landsbankanum árið 2005.  Hún missti íbúðina sína þann 01.10 á síðasta ár, núna leigir hún með börnin sín þrjú og hefur það sem betur fer ágætt í dagi, hin dóttir mín sem skuldar bílalánið er í slæmum málum.  Bílalánið stendur í 1.5 milljónum en bíllinn er kannski 7-800 þúsund króna virði. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.8.2009 kl. 03:16

2 Smámynd: Sigrún Aðalsteinsdóttir

Það er eitthvað svipað hjá minni dóttur, en brosandi barnabarnið eykur mér og mömmunni þrótt.

Sigrún Aðalsteinsdóttir, 1.8.2009 kl. 03:29

3 identicon

Sæl, Sigrún

Þetta er góð spurning,

sem mætti hafa á hreinu í dómsmálalöggjöfinni, þegar á reynir.!

Kveðja.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 07:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband