25.10.2009 | 03:07
Íslenskukennsla manna og dýra
Á mínum vinnustað eru nokkuð margir útlendingar. Sumir eru búnir að búa lengi hér á landinu kalda og hafa að aðlagast nokkuð vel og skarta jafnvel tveimur vegabréfum. Þeir tala yfirleitt ágæta íslensku og ambögurnar eru bara krúttlegar, líklega svipaðar og ef ég hefði flutt til Rússlands fyrir 10 árum og þættist kunna rússnesku, t.d "ég var svo hissandi" (ég var mjög hissa). Svo eru aðrir starfsmenn á svæðinu sem hafa dvalið skemur og jafnvel ekki hugsað sér að ílendast. Þeir tala ekki íslensku og ætla sér ekki að læra hana, enda ekki þörf á því þar sem allir tala ensku við þá. Þó vil ég taka fram að allflestir þeirra tala mjög bjagaða ensku og ég er farin að reka mig á að ég er farin að tala jafn bjagaða ensku við þá. Þrátt fyrir að hér fyrr á árum talaði enskumælandi fólk um að ég væri mjög fær í ensku, m.v. að það væri ekki móðurmál mitt.
Monica samstarfskona mín sem er frá landi sunnarlega í Evrópu hefur ekki hugsað sér að læra íslensku þrátt fyrir hvatningu mína. Hún segir að hennar (bjagaða) enska dugi henni ágætlega. Ég er gjörn á að skella á hana einhverjum íslenskum setningum, sem hún apar svo eftir með frekar döprum árangri. T.d. var setningin "gjörðu svo vel" henni algjörlega óyfirstíganleg. Og nafnið mitt, ó, jú hún var nú góð með sig að geta sagt það rétt, þangað til að hún fattaði að það beygðist, Sigrún, Sigrúnu, Sigrúnu til Sigrúnar, þá féllust henni hendur og ég held að hún sé að huga að brottför fljótlega frá landinu bláa, þetta var meira en hún þoldi.
Mér hefur ekki tekist að pikka upp margar línur frá samstarfsmönnum mínum, enda er um "allra þjóða kvikindi" að ræða, svo líklega færi allt í flækju ef ég færi að læra ca 5 - 6 tungumál í einu. En nokkrar setningar hef ég tileinkað mér, þó ég hafi ekki hátt um það.
Það er annað mál með hundinn minn. Honum gengur ágætlega að læra íslensku. Hann skilur nú þegar eftirfarandi orð, eftir því sem ég best veit:
Freddý - nafnið hans
mamma, pabbi, Sara, Steini, amma og allnokkur manna- og dýranöfn til viðbótar. N.B. hann gerir sér fyllilega grein fyrir mismuninum á titlinum mamma og amma, þangað til ég fór að svara báðum, þá varð hvutti minn smá ringlaður
Síðan skilur hann vel orðin nammi (líklega hélt hann að það væri nafnið hans, þegar þjálfun hans stóð sem hæst), matur, pylsa, pulsa (ath. það er tvennt ólíkt), lifrarpylsa, bein og nýjasta orðið hans á þessu sviði er kæfa. Ég vil benda á að hann verður alveg extra flottur og ljúfur þegar þessi orð eru nefnd og líklegur til þess að sýna hinar ýmsu kúnstir til þess að þóknast viðmælanda sínum
Svo skilur hann, sittu, stattu, sæll, liggðu, dansa og vertu fínn og gimmífæv og hann er svo fjölhæfur að hann skilur meira að segja sit (sem er enska útgáfan) og set dig ned paa röven (sem er danska útgáfan). Ég vil taka það fram að hann skilur þessi orð mun betur ef einhverjum hlutum sem nefndir eru í fyrri málsgrein er veifað fyrir framan trýnið á honum
Hann lyftist allur og brosir sínu blíðasta ef honum er boðið út, en verður flóttalegur, með rófuna á milli fóta ef honum er boðið í bað. Þegar baðið er afstaðið þá er hann montinn með sig, en er ekki búinn að fatta setninguna: "Ekki hrista þig", sem þýðir að baðherbergið fer í bað um leið og hann
Ljúft þykir honum að heyra einhvern bjóða honum að koma í holu, þá kemur á hann sælusvipur og hann stekkur upp í sófa og hringar sig til fóta hjá viðkomandi. Hann gerir greinarmun á holu og pabbaholu, en þar er honum alveg bannað að vera og hefur ósjaldan lent í vandræðum þegar hann hefur komið sér notalega fyrir þar. Það er annað mál með mömmuholu, þar er mun ljúfara að kúra og meiri friður. Hann skilur vel orðin færðu þig, upp, út, niður, en hann virðist ekki skilja orðið hættu. Alla vega ekki fyrr en of seint. Hann verður allur uppveðraður ef minnst er á að fara í bílinn, en heldur verður hann niðurdreginn og lúpulegur þegar hann er settur í hundaöryggisbeltið, það er hans mesta niðurlæging
Hann veðrast allur upp ef einhver býður upp á knús eða svo maður tali nú ekki um koss, þá leggur hann trýnið sitt að vanga manns, en aðeins eitt augnablik, ekki til í að eyða miklum tíma í svoleiðis pjatt.
En best af öllu er að hann skilur orðin duglegur og sætastur (alveg eins og strákurinn minn) og sýnir alla sínu bestu takta þegar einhver nefnir ofangreind orð
Hann breytist í vígalegan varðhund þegar hann heyrir orðið kisa og bara við það að heyra í bjöllum nágrannakattanna missir hann heyrnina og gleymir algjörlega hvað nei, hættu, pylsa, pulsa og öll hin orðin þýða.
En af þessu öllu hef ég nú áttað mig á því að það er ekki svo erfitt að kenna einhverjum íslensku, það verða bara að vera verðlaun í boði og klapp á bakið.
Hvernig er annað hægt en elska þessi blessuð dýr sem við höfum tekið að okkur að vernda
Athugasemdir
Sæl Sigrún og velkominn í vinahópinn.
Þetta er frábær og skemmtilegur pistill hjá þér,hnitmiðaður á ýmis vandamál okkar fólksins, í landinu góða .
Kveðja.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 25.10.2009 kl. 04:55
Hann Úlfur minn skilur líka alveg fullt af orðum, um daginn var ég að tala við dóttur mína um daginn og veginn. Svo fer ég að tala um hundinn, og hann uppveðrast allur þangað til ég segi dóttur minni frá slysi sem gerst hafði nóttina áður. Ég sagði við dóttur mína "hann Úlli kúkaði á gólfið síðustu nótt". Hundurinn missti andlitið og flýtti sér undir sófaborðið og lét lítið fyrir sér fara. Hann Úlfur kúkar þegar honum er sagt að kúka þannig að hann skildi að ég var að tala um að kúka á gólfið. Við mæðgur sprungum næstum því úr hlátri, vegna viðbragða hundsins.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.10.2009 kl. 01:33
Ha ha ha, ég kannast nú reyndar við slík viðbrögð hjá mínum hundi, í þau fáu skipti sem slík slys hafa orðið. Slíkt gerist nú bara ef hann er eitthvað lasinn, svo maður vill ekki skamma hann neitt, en hann verður alveg sérstaklega skömmustulegur.
Sigrún Aðalsteinsdóttir, 26.10.2009 kl. 10:25
Þú ert frábær
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.10.2009 kl. 10:38
Skemmtileg færsla hjá þér Sigrún. Hún Skotta mín er líka mikil "málatík", hefur góðan orðaforða og les að sjálfsögðu húsmóður sína eins og opna bók...
Hildur Helga Sigurðardóttir, 28.10.2009 kl. 15:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.