30.10.2009 | 22:22
Saga handa kattavinum og fáfróðum kattaÓvinum
Eitt sinn áttum við læðu sem gaut þremur yndislegum kettlingum. Einn þeirra Betúel er enn hjá okkur 13 árum seinna, okkur öllum til mikillar gleði , en hinir tveir fengu gott heimili.
Þegar kettlingarnir hennar Blíðu voru rétt búnir að opna augun, var haldið upp á 3ja ára afmæli heimasætunnar í næstu íbúð. Mamma hennar kom að máli við mig og spurði hvort ég væri til í að koma með kettlingana til þess að leyfa litlu borgarbörnunum að sjá hvernig lítil kisubörn litu út
Það þótti mér alveg tilvalið og mætti ég í afmælið þegar fjörið stóð sem hæst og þegar við birtumst með kettlingana datt allt í dúnalogn. Litlu krílin hættu strax ærslafengnum leik og vildu öll fá að halda á og klappa litlu kisubörnunum. Allir biðu rólegir eftir að röðin kæmi að þeim, þau jafnvel hvísluðust á til þess að hræða ekki litlu greyin
Röðin kom loks að 3ja ára strák, sem allan tímann hafði beðið þolinmóður og var hann alveg himinlifandi yfir að fá að horfa á litlu kisu Mamma hans stóð þarna álengdar og sagði "sjáðu, svona lítur kisa út". Við mig sagði hún að strákurinn hefði aldrei fyrr séð lifandi kisu, hvorki sem kettling né fullvaxta.
Þá tók ég mig til og lét kettlinginn í fangið á snáðanum. Ég sá hvernig andlit hans ljómaði af gleði og hann klappaði kettlingnum varlega , en í því heyrðist skrækt væl, fullt taugaveiklunar, sem skaut okkur öllum þremur skelk í bringu. Það kom frá mömmunni sem hrópaði að mér, "ekki láta köttinn í fangið á honum, hann er með ofnæmi" . Ég svaraði um hæl, "varstu ekki að segja að sonur þinn hefði aldrei séð lifandi kött fyrr, hvernig geturðu vitað að hann sé með ofnæmi?" og mamman svaraði snúðugt "pabbi hans er með kattaofnæmi, og strákurinn er svo líkur honum"
Að mínu mati og margra annarra hafa börn mjög gott af því að umgangast dýr. Það kennir þeim að taka tillit til annarra og færir jafnvel nafla alheimsins frá þeim sjálfum. Hvað er betra en eiga ferfættan vin heima, sem þarf að sinna um, gefa fóður og vatn, sem alltaf er sammála manni, yfirleitt alltaf til í að leika og elskar að fá að kúra hjá manni . Sum börn eru alsæl með að eiga hamstra, fugla eða fiska og um að gera að leyfa þeim það, auðvitað er það extra vinna fyrir foreldrana, en það er hollt fyrir börnin okkar.
Mér finnst alltof algengt að sótthræddir, þröngsýnir foreldrar yfirfæri hræðslu sína við dýr á börnin sín og ala þar af leiðandi upp kynslóð, sem ekki veit að lífið getur snúist um eitthvað meira en þau sjálf og eru logandi hrædd við allt utanaðkomandi.
Svo ég fari nú út í aðra sálma, þá get ég ekki skilið hvernig sumt fólk sem býr í fjölbýli lætur ef það verður vart við gæludýr í húsinu og jafnvel kominn tími til þess að einhver fjölbýlishús hér í bæ LEYFI GÆLUDÝRAHALD að ströngum skilyrðum uppfylltum, sum húsfélög fetta jafnvel fingur út í það ef einhver kemur í heimsókn með hund - og stoppar í klukkutíma eða tvo.
Fyrir mörgum árum bjó ég á jarðhæð í blokk, sem ekki er í frásögur færandi. Gluggarnir á íbúðinni minni voru ca. 30 cm frá jörðu og sneru flestir að skjólsælu horni. Mér var mikill ami að því að bræður sem bjuggu ofar í húsinu léku sér alltaf fyrir utan svefnherbergisgluggann minn í aksjon- og heemannleik, með tilheyrandi látum og allnokkrum sinnum hafði ég orð á því við pabba þeirra þegar ég mætti honum í stigaganginum, enda orðin langþreytt á látunum. Pabbinn lofaði að tala við strákana, en ekkert gerðist og lætin héldu áfram hvort sem var síðdegis eða eldsnemma á helgar-morgnum.
Svo einn góðan veðurdag fékk ég mér kött, þetta var á þeim tíma sem ekki var orðið 100% BANNAÐ að hafa gæludýr í fjölbýli svo ég spurði engan leyfis, enda bjó ég á jarðhæð og kötturinn fór aldrei í gegnum sameignina.
Kisa mín var alveg sátt við það að fara inn og út um gluggana hjá mér, þannig að ekki var ónæði af henni fyrir nágrannana, nema í eitt skipti slapp hún út á stigaganginn og alla leið upp á efstu hæð. Og ég á eftir henni, kisa mín nokkuð skelkuð - enda á ókunnugum stað, en róaðist fljótt í fangi mínu á niðurleið.
En á fyrstu hæð mætti ég pabba aksjón-heeman-strákanna og hann varð alveg æfur þegar hann sá að ég var með kött. "Ertu með kött hérna í húsinu, það er alveg endalaus óþrifnaður og ófriður af þessum kvikindum og ætti að lóga þeim öllum, á næsta húsfundi ætla ég að fara fram á að gæludýr verði bönnuð í húsinu".
Jæja, kallinn finnst þér það, svaraði ég öskuvond, er kisa mín búin að ónáða þig mikið, hún er búin að búa hér í hálft ár og aldrei hefur nokkur íbúi þurft að kvarta undan henni, en ég aftur á móti hef margrætt við þig að þú biðjir strákana þína að leika sér annars staðar er fyrir utan svefnherbergisgluggann minn, en alltaf eru þeir mættir fyrir utan gluggann mér til mikils ama.
Þannig að það er spurning um hverjum á að lóga?
Hann minntist aldrei framar einu orði á kisuna mína, en heilsaði mér flóttalega þegar við mættumst í sameigninni.
Vegna þessarar færslu vil ég taka fram að ég met EKKI líf gæludýra meira en barna. Börnin okkar eru ómetanleg, en vil samt benda á að það væri þeim ómetanleg gleði að fá að alast upp með gæludýrum.
Athugasemdir
Ekkert af mínum börnum er með ofnæmi fyrir dýrum, enda alltaf verið dýr á mínu heimili.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 30.10.2009 kl. 22:31
Þú gleymir þó að minnast á þann hæfileika hjá hefðarkettinum að opna hurðarnar hvort sem að það sé inn eða út. Það er ferlega kúl þar til að þegar að við vöknum við lætin sem að því fylgir.
En mikið er ég sammála því að fá að alast upp með dýrum séu forréttindi. Það ættu að vera svona gæludýrablokkir eins og það eru eldrimanna blokkir (þar sem að börn eru bönnuð). Er alls ekki á móti börnum en með dýrablokkirnar ef að þú er ekki svona dýra manneskja að þá áttu ekki að búa í þessum gæludýrablokkum !!!
SaraN, 30.10.2009 kl. 22:55
En hvað með okkur sem ólumst upp með köttum, langar svo mikið í kött, skreppum til Danmerkur og nælum okkur í kattarofnæmi þar (eða að minnsta kosti áttum okkur á því að við erum með slíkt ógeð). Eru til svona blokkir fyrir okkur þar sem við getum komið leyft börnunum okkar að heimsækja ferfætlinga?
Gerða frænka og MOrri besti frændi (IP-tala skráð) 30.10.2009 kl. 23:13
Senda snáðann bara til Monster frænku, fær bæði kött og hund beint í fang. Vildi ekki segja beint í æð, er enginn brjálaður vísindamaður, sem leysir upp rannsóknarviðföngin.
Gerða, ég trúi því ekki að þú sért með kattarofnæmi, ertu ekki bara með kattarsýki (sbr. móðursýki)
Sigrún Aðalsteinsdóttir, 30.10.2009 kl. 23:18
Falleg saga hjá þér Sigrún mín. Og svo sönn. Sumir foreldrar eru hreinlega móðursjúkir yfir dýrahaldi. Og margt barnið verður af umgengni við blessuð dýrin einmitt útaf svona hræðslu. Það hafa allir gott af að umgangast dýr. Og ofnæmi er að hluta til áunnin sjúkdómur vegna of mikils hreinlætis.
Knús á þig.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.11.2009 kl. 12:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.