Færsluflokkur: Ferðalög
28.3.2009 | 23:50
Furðuferðasaga númer 3 - Sveðja í lestinni
Furðuferðasaga þrjú.
Ég er ekki mjög víðförul kona, en skrapp til kóngsins Köben síðustu helgi og þá rifjaðist upp fyrir mér nokkrar sögur frá fyrri heimsóknum þangað.
Í síðustu dvöl minni í Kaupmannahöfn dáðist ég mjög að samgöngukerfi þeirra þar í borg og þá rifjaðist upp fyrir mér að hér um árið þegar við Sara mín vorum túristar í Köben skruppum við á Bakkann einn daginn. Við tókum strætó á svæðið og hestvagn í gegnum skóginn, alveg yndislegur dagur sem við eyddum í að fara í hin ýmsu tívolítæki og nutum lífsins.
Það var þar sem Sara mín varð fyrir þeirri óheppni að fíll steig ofan á fótinn á henni. Reyndar ekki stór fíll, hún (fíllinn) hét Tanja og var á fílaunglingsaldri, en alveg örugglega ekki gott fyrir sex ára hnátu að verða undir táningsfíl.
Við ákváðum að taka lestina heim á Hovedbanegarden og sú sem við náðum var frekar seint um kvöldið. Settumst við mæðgurnar nú í sæti þar sem tvö sætu sneru á móti okkur og líkaði vel. En á næstu stoppistöð lestarinnar kemur inn í vagninn mjög svo óárennilegur gaur og hyggst setjast í sæti beint á móti okkur. Mér leyst nú ekkert sérstaklega vel á kauða, vonaði þó það besta og gerði ráð fyrir því versta, sem rættist reyndar.
Þegar kauði hyggst taka sér sæti, stynur hann allt í einu ámátlega, réttir svo úr sér og dregur ca. 40-50 cm sveðju upp úr buxnastrengnum, sest niður og leggur sveðjuna yfir lærin á sér, en lætur samt ekki mikið á sér bera að öðru leyti.
Ég verð að viðurkenna að þarna fylltist ég skelfingu. Náunginn lét svosem ekki ófriðsamlega, en ég var skelfingu lostin með þennan náunga fyrir framan okkur, en samt þorði ég ekki að flytja okkur til í vagninum.
Ég sagði við Söru mína sem var örmagna af þreytu eftir daginn og skelfingu lostin að við skyldum sitja sem fastast og fara út um leið og flestir færu út úr vagninum.
Ferðin leið nokkrar stoppistöðvar þar sem nokkrar hræður komu inn eða fóru út úr vagninum og ég var stanslaust með augun á þessum skuggalega gaur, en reyndi samt eftir megni að dreifa athygli dóttur minnar frá honum.
Svo kom loksins að því sem ég hafði beðið eftir, flestallir aðrir flykktust út úr lestinni, svo við mæðgurnar ætluðum sko ekki að vera einar með þessum náunga og skokkuðum á eftir liðinu. Í rólegheitum rak skuggalegi gaurinn lestina og eiginlega var ég sannfærð um að hann væri á eftir okkur með sína hræðilegu sveðju.
Í öllu stressinu hafði ég ekki tekið eftir því að við vorum komnar á lestarstöðina okkar, ég var svo upptekin af því að fylgjast með sveðjunni. En þegar út var komið og ég fattaði að við vorum komnar á heimaslóðir tókum við mæðgurnar á rás beint heim á hótel sem var sem betur fer hinu megin við götuna.
Í ferð minni til Köben núna um daginn, um tuttugu árum seinna gat ég ekki annað en dáðst að samgöngukerfinu þar. Allir strætóar og lestir sem við fórum í voru mjög hrein, fljótlegt var að komast á milli staða og verðið var mjög sanngjarnt. Ef samgöngur á stór-Reykjavíkursvæðinu væru sambærilegar myndi ég mjög líklega nýta mér þær. En eins og staðan er í dag tekur mig yfir 60 mínútur að fara með strætó í vinnu á meðan ég er 15-20 mínútur að keyra, þá held ég mig frekar við bílinn. Og losna við hinar ýmsu hrellingar sem geta komið upp á við að nota almenningssamgöngur s.b.r. söguna hér að ofan.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2008 | 01:46
Steluþjófar í búðum
Furðuferðasaga tvö
Sagan um svanga þjóninn var númer eitt.
Las í e-h blaði í gær að þjófnaðir kostuðu verslunareigendur milljarða á hverju ári og þá rifjaðist upp fyrir mér að eitt sinn varð ég vitni að þjófnaði í verslun - og eins og margir aðrir, gerði ekkert í því, enda algjörlega stjörf af undrun.
Þetta gerðist á þeim árum sem enn var hagstætt að skreppa og versla yfir pollinn. Við vorum semsagt í verslunarferð og eins og alvöru íslendingum sæmir þræddum við ganga í risastórri verslun og mokuðum í kerruna okkar frá hægri og vinstri. Á rölti mínu um gósenlandið hafði ég tekið eftir tveimur nunnum sem litu út fyrir að vera akkúrat það sem þær dressuðu sig upp til að vera, þ.e.a.s. nunnur. Uppþornaðar, aldrei sett rakakrem framan í sig og vissu líkast til ekkert hvað maskari væri og því síður varalitur.
En þær voru þarna að versla eins og hver annar hélt ég og þar sem ég stend og velti fyrir mér hvort ég eigi nú að kaupa 10 eða 20 sokkapör á stórlega niðursettu verði, verð ég vitni að því að önnur nunnan - svo saklaus og sannkristin - stingur inn á sig sokkabúnti, það var þetta með 20 pörum. En ég varð svo hissa og algjörlega orðlaus að ég hafði ekki rænu á að segja neinum frá. Ég njósnaði þó um þessa "brúði Krists" og félaga (kvk. félögu, bara spyr?) alveg fram að kassanum og þar gengu þær báðar hnarreistar og algjörlega skuldlausar að eigin mati beint í gegn og borguðu ekki krónu, ég meina pund. En eftir stóð ég og með glöðu geði borgaði ég uppsett verð og velti fyrir mér hvað annað væri nú undir nunnukuflunum. Það er nú ýmislegt sem hægt er að leyna þar, og duga 20 sokkapör lítt í þá hít.
Hvað með það, mér fannst ég græða á hagstæðara verðlagi en heima, en í raun tapaði ég líka vegna þess að tap vegna steluþjófa bitnar bara á heiðarlegum viðskiptavinum.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 01:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.8.2008 | 17:59
Svangur þjónn eða falin myndavél?
Maður lendir stundum í furðulegum uppákomum sem fólk á jafnvel bágt með að trúa að geti verið satt. Eitt sinn lenti ég í einni slíkri á ferðalagi á Ítalíu, þegar ég var unglingur.
Við vorum sex saman á götukaffihúsi í Napólí. Ferðafélagar mínir voru að væta kverkarnar með kaffi eða bjór, en fátt var í boði sem freistaði mín, svo ég rölti yfir götuna til að kaupa mér hamborgara í take away búllu. Svo þegar ég kem til baka með minn girnilega hamborgara sest ég til borðs og panta mér drykk hjá þjóninum. Sá kom að vörum spori með kókglas og um leið og hann skilaði af sér drykknum, gerði hann sér lítið fyrir og beit risabita af hamborgaranum mínum.
Það þarf ekki að orðlengja það að uppi varð fótur og fit við borðið, ferðafélagar mínir afar ósáttir við framkomuna við unglinginn, en þjónninn glotti bara. Að sjálfsögðu bauð ég svanga þjóninum að éta það sem eftir var af hamborgaranum, sem hann þáði.
Líkast til var ætlun hans að sýna með þessu að hann væri ósáttur við að ég væri að snæða eitthvað sem ekki var keypt á hans veitingastað, en furðuleg aðferð til þess að flestra mati.
Sagan endaði þannig að ég var send aftur yfir götuna og nú til að kaupa hamborgara handa öllum við borðið, enda ekki hægt að standast svona gómsætan skyndibita.
Þjónninn virtist alveg sáttur þegar ég mætti með sex hamborgara, enda orðinn saddur og sæll og við gátum étið þá í friði í þetta skiptið.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)