10.8.2008 | 17:59
Svangur þjónn eða falin myndavél?
Maður lendir stundum í furðulegum uppákomum sem fólk á jafnvel bágt með að trúa að geti verið satt. Eitt sinn lenti ég í einni slíkri á ferðalagi á Ítalíu, þegar ég var unglingur.
Við vorum sex saman á götukaffihúsi í Napólí. Ferðafélagar mínir voru að væta kverkarnar með kaffi eða bjór, en fátt var í boði sem freistaði mín, svo ég rölti yfir götuna til að kaupa mér hamborgara í take away búllu. Svo þegar ég kem til baka með minn girnilega hamborgara sest ég til borðs og panta mér drykk hjá þjóninum. Sá kom að vörum spori með kókglas og um leið og hann skilaði af sér drykknum, gerði hann sér lítið fyrir og beit risabita af hamborgaranum mínum.
Það þarf ekki að orðlengja það að uppi varð fótur og fit við borðið, ferðafélagar mínir afar ósáttir við framkomuna við unglinginn, en þjónninn glotti bara. Að sjálfsögðu bauð ég svanga þjóninum að éta það sem eftir var af hamborgaranum, sem hann þáði.
Líkast til var ætlun hans að sýna með þessu að hann væri ósáttur við að ég væri að snæða eitthvað sem ekki var keypt á hans veitingastað, en furðuleg aðferð til þess að flestra mati.
Sagan endaði þannig að ég var send aftur yfir götuna og nú til að kaupa hamborgara handa öllum við borðið, enda ekki hægt að standast svona gómsætan skyndibita.
Þjónninn virtist alveg sáttur þegar ég mætti með sex hamborgara, enda orðinn saddur og sæll og við gátum étið þá í friði í þetta skiptið.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.7.2008 | 22:09
Hann á afmæli í dag
Já, strákurinn minn hann Steini á 15 ára afmæli í dag. Mamman fjarri góðu gamni, enda þeir feðgar á Partillecup í Svíþjóð. Það virðist svo ótrúlega stutt síðan hann var bara pínupons en núna er hann vaxinn okkur öllum í fjölskyldunni yfir höfuð og erum við þó ekkert sérstaklega smávaxin.
Dagurinn búinn að vera frábær hjá honum, fór þrisvar í rússibana í Liseberggarðinum. Þar hefði ég viljað vera fluga á vegg, enda drengurinn í meira lagi lofthræddur. Kannski manni takist að draga hann í eitthvað fjör í Tivoli World á Spáni í næstu viku. Ég spennufíkillinn lít á þessar þrjár rússíbanaferðir hans í dag sem mikið þroskamerki. Rússíbanaferðir eru jú alveg frábær spennulosun.
Til hamingju með daginn elsku Steini minn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.6.2008 | 23:15
Íslenskukennsla manna og hunda
Á mínum vinnustað eru nokkuð margir útlendingar. Sumir eru búnir að búa lengi hér á landinu kalda, búnir að aðlagast nokkuð vel og skarta jafnvel tveimur vegabréfum. Þeir tala yfirleitt ágæta íslensku og ambögurnar hjá þeim eru bara krúttlegar, líklega svipaðar og ef ég hefði flutt til Rússlands fyrir 10 árum og þættist kunna rússnesku lýtalaust. Svo eru aðrir starfsmenn á svæðinu sem hafa dvalið skemur og jafnvel ekki hugsað sér að ílendast. Þeir tala ekki íslensku og hafa ekki hugsað sér að læra hana, enda ekki þörf á því þar sem allir tala ensku við þá. Þó vil ég taka fram að allflestir þeirra tala bjagaða ensku og ég er farin að reka mig á að ég er farin að tala jafn bjagaða ensku við þá. Þrátt fyrir að hér fyrr á árum talaði enskumælandi fólk um að ég væri mjög fær í ensku, m.v. að það væri ekki mitt móðurmál.
Monica samstarfskona mín sem er frá landi sunnarlega í Evrópu hefur ekki hugsað sér að læra íslensku þrátt fyrir hvatningu mína. Hún segir að hennar (bjagaða) enska dugi henni ágætlega. Ég er gjörn á að skella á hana einhverjum íslenskum setningum, sem hún apar svo eftir með frekar döprum árangri. T.d. var setningin "gjörðu svo vel" henni algjörlega óyfirstíganleg. Og nafnið mitt, ó, jú hún var nú góð með sig að geta sagt það rétt, þangað til að hún fattaði að það beygðist, Sigrún, Sigrúnu, Sigrúnu til Sigrúnar, þá féllust henni hendur og ég held að hún sé að huga að brottför fljótlega frá landinu bláa, þetta var meira en hún þoldi.
Mér hefur ekki tekist að pikka upp margar línur frá samstarfsmönnum mínum, enda er um "allra þjóða kvikindi" að ræða, svo líklega færi allt í flækju ef ég færi að læra ca 5 - 6 tungumál í einu. En nokkrar setningar hef ég tileinkað mér, þó ég hafi ekki hátt um það.
Það er annað mál með hundinn minn. Honum gengur ágætlega að læra íslensku. Hann skilur nú þegar eftirfarandi orð, eftir því sem ég best veit:
Freddý - nafnið hans
mamma, pabbi, Sara, Steini, amma og allnokkur manna- og dýranöfn til viðbótar.
Síðan skilur hann vel orðin nammi (líklega hélt hann að það væri nafnið hans, þegar þjálfun hans stóð sem hæst), matur, pylsa, pulsa (ath. það er tvennt ólíkt), lifrarpylsa, bein og nýjasta orðið hans á þessu sviði er kæfa. Ég vil benda á að hann verður alveg extra flottur og ljúfur þegar þessi orð eru nefnd og líklegur til þess að sýna hinar ýmsu kúnstir til þess að þóknast viðmælanda sínum.
Svo skilur hann, sittu, stattu, sæll, liggðu, dansa og vertu fínn og hann er svo fjölhæfur að hann skilur meira að segja sit (sem er enska útgáfan) og set dig ned paa röven (sem er danska útgáfan). Ég vil taka það fram að hann skilur þessi orð mun betur ef e-h hlutum sem nefndir eru í fyrri málsgrein er veifað fyrir framan trýnið á honum.
Hann lyftist allur og brosir sínu blíðasta ef honum er boðið út, en verður flóttalegur, með rófuna á milli fóta ef honum er boðið í bað. Þegar baðið er afstaðið þá er hann montinn með sig, en er ekki búinn að fatta setninguna: "Ekki hrista þig", sem þýðir að baðherbergið fer í bað um leið og hann.
Ljúft þykir honum að heyra einhvern bjóða honum að koma í holu, þá kemur á hann sælusvipur og hann stekkur upp í sófa og hringar sig til fóta hjá viðkomandi. Hann gerir ekki greinarmun á holu og pabbaholu, en þar er honum alveg bannað að vera og hefur ósjaldan lent í vandræðum þegar hann hefur komið sér notalega fyrir þar. Það er annað mál með mömmuholu, þar er mun ljúfara að kúra og meiri friður. Hann skilur vel orðin færðu þig, upp, út, niður, en hann virðist ekki skilja orðið hættu. Alla vega ekki fyrr en of seint. Hann verður allur uppveðraður ef minnst er á að fara í bílinn, en heldur verður hann niðurbeygður og lúpulegur þegar hann er settur í hundaöryggisbeltið, það er hans mesta niðurlæging.
Hann veðrast allur upp ef einhver býður upp á knús eða svo maður tali nú ekki um koss, þá leggur hann trýnið sitt við vanga manns, en aðeins eitt augnablik, ekki til í að eyða miklum tíma í svoleiðis pjatt.
En best af öllu er að hann skilur orðin duglegur og sætastur (alveg eins og strákurinn minn) og sýnir alla sínu bestu takta þegar einhver nefnir ofangreind orð.
Hann breytist í vígalegan varðhund þegar hann heyrir orðið kisa og bara við það að heyra í bjöllum nágrannakattanna missir hann heyrnina og gleymir algjörlega hvað nei, hættu, pylsa, pulsa og öll hin orðin þýða.
En af þessu öllu hef ég nú áttað mig á því að það er ekki svo erfitt að kenna einhverjum íslensku, það verða bara að vera verðlaun í boði og klapp á bakið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.5.2008 | 23:05
Æskuminning um jarðskjálfta.
Ég er hrædd við jarðskjálfta, alveg skíthrædd og fólkið á Suðurlandi á alla mína samúð í þeim hremmingum sem það gengur í gegnum nú um stundir.
En einu get ég hlegið að í dag, það er að segja fyrstu reynslu minni af jarðskjálfta, þó ég hafi fyllst skelfingu þegar það gerðist.
Víkur nú sögu nokkra áratugi aftur í tímann, ég var bara lítið stelpuskott og móðir mín með afbrigðum morgunsvæf. Þennan morgunn, eins og flesta aðra morgna vaknaði ég á undan mömmu og var búin að reyna ýmsar kúnstir til þess að vekja hana. Ég hoppaði og skoppaði í rúminu, knúsaði hana og ég hef líklegast hef ég gerst nokkuð hávær. Það var alveg sama hvað ég reyndi að vekja hana, svarið var alltaf það sama "ég er að koma" og á eftir fylgdi löööng hrota.
Þá allt í einu ríður yfir mikill jarðskjálfti, húsið nötraði, myndir duttu af veggjum og leirtau skrölti. En mamma mín, hún rétt rumskaði og tautaði upp úr svefnrofunum, "hættu að hrista rúmið krakki, ég er að koma" Og ég alveg skelfingu lostin, galaði á háa céinu "ég er ekki að hrista rúmið, það er einhver að hrista húsið" og með það sveif ég í einu stökki upp í rúm og lenti á koddanum hjá mömmu (það var fyrsta flugferðin mín). Það þarf ekki að orðlengja það að mamma glaðvaknaði á stundinni og þurfti nú að róa niður litla nöldursegginn sinn.
En eftir það var lengi haft á orði í minni fjölskyldu um svefnpurrkur, að það þyrfti nú jarðskjálfta til að mjaka viðkomandi úr bólinu og vitnað til mestu svefnpurrku fjölskyldunnar, sem fyrir margt löngu er horfin yfir móðuna miklu, blessuð sé minning hennar.
Enn er ég mjög hrædd við jarðskjálfta, það er víst ekkert sem eldist af manni, enda óhugguleg upplifun. Ég vona bara að þessi ósköp þarna fyrir austan séu yfirstaðin.
Enn og aftur óska ég fórnarlömbum jarðskjálftans alls hin besta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2008 | 00:20
Systur á hækjum...
Ég fór í smáaðgerð á hné s.l. föstudag og þurfti að styðjast við hækjur í tvo - segi og skrifa tvo heila daga. Ekki gekk það nú vandræðalaust fyrir sig og má segja að ég hafi síður en svo verið tíguleg með hjálpartækin mín. Núna staulast ég um haltrandi, en sleppti hækjunum, þar sem ég taldi líklegra að ég myndi ná mér fyrr án þeirra. Með þeim myndi ég líklegast endasteypast á kollinn og þurfa á frekari læknishjálp að halda og líklega á einhverjum öðrum líkamspörtum en hné. Ég hafði alveg sérstakar áhyggjur af toppstykkinu í þessu sambandi.
Því varð mér hugsað til Gústu minnar yndislegu systur sem fór í aðgerð á ökkla í byrjun október í fyrra (minnir mig) og er búin að vera á hækjum síðan, reyndar mun lengur ef út í það er farið, því hún þurfti að bíða svo lengi eftir aðgerðinni að ég held að hún sé búin að vera með hækjurnar í 2 - 3 ár. Núna er hún á þessum fínu túrbóhækjum, sem eru með handfangi sem er sérstaklega lagað að lófanum og alveg alsæl með græjurnar. Þó hef ég grun um að mest af öllu langi hana til þess að vera í þannig aðstöðu að hún geti kastað þeim út í hafsauga og aldrei þurft að berja þær augum framar. Ég vona hennar vegna að það gerist fljótlega.
S.l. sunnudag fór ég í útskriftarveislu hjá Guðna Frey bróðursyni mínum og þangað mætti ég með hækjuna mína - var þá búin að kasta hækju tvö í þeirri viðleitni að bjarga áðurnefndu toppstykki. Þar var að sjálfsögðu einnig mætt mín ástkæra, þolinmóða systir á sínum fínu hækjum og ég er ekki frá því að hún hafi verið nokkuð sátt að einhver annar en hún væri mætt á svæðið á hækjum.
Margir urðu hissa á því að ÉG væri á hækjum, en enginn kippti sér upp við það að Gústa blessunin væri á hækjum, enda allir í fjölskyldunni fyrir löngu búnir að venjast því að hún ferðist kona ekki einsömul. Ég verð þó að segja að mér finnst kominn tími til þess að Guð og góðir vættir beini athygli sinni að henni, aumki sig yfir hana, svo hún geti fljótlega og helst í gær byrjað að dansa tangó og ballett. Ekki það að hún hafi lagt slíkan dans fyrir sig hingað til, en ég tel líklegt að hún geri eitthvað róttækt þegar hún fer að ganga á sínum tveimur jafnfljótum.
En fljótlega mun ég geta sett inn myndir á bloggið mitt og af því mun Gústa systir eiga allan heiðurinn. Í viðleitni sinni til að halda sönsum hefur hún fundið upp á ýmsu til að stytta sér stundir. Mest notar hún tímann í lestur, enda mesti lestrarhestur sem ég þekki, en það dugar ekki til. Og nú nýlega tók hún sig til og skannaði allar ljósmyndir sem til voru á heimili hennar, lagaði sumar sem voru orðnar gamlar og lúnar, en fór ekki út í alvarlegar sögufalsanir eftir því sem ég best veit. Nú, hún var ekki lengi að klára eigið ljósmyndasafn, túrbókonan á túrbóhækjunum, svo núna er hún byrjuð á mínum ljósmyndum. Þannig að innan skamms verðum ég og mínir orðin stafræn og það er allt henni Gústu minni að þakka og þá styttist í að ég skelli myndum inn á bloggið mitt.
Góðan bata Gútta mín....
Næst þegar hana vantar eitthvað að gera ætla ég að segja henni að fara að blogga, enda hún orðin vön að sitja við tölvuna og skemmtilegur penni getur hún verið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)