Hugleiðing

Í hvirfilbyljum síðustu mánaða gleyma sumir því sem dýrmætast er.  Að ættingjar og vinir hafi það gott og að manns nánasta fjölskylda sé þokkalega sátt við tilveruna. Það skiptir líklega mestu þegar öllu er á botninn hvolft.

Lífið er ekki bara til þess að svekkja sig á.  Á þessum tímum er auðvelt að gleyma sér í ergelsi yfir því ástandi sem örfáir aðilar hafa kallað yfir þessa þjóð.

En við þurfum líka að líta á björtu hliðarnar. 

T.d. er ég afar þakklát yfir því að tengdó er nú þokkalega hress eftir langan veikindakafla í vetur.

Að drengurinn minn fékk 8,7 í meðaleinkunn upp úr tíunda bekk. 

Að dóttir mín og dótturdóttir búi hérna hjá okkur og við fáum að njóta þess að fylgjast með þroska litlu nöfnu minnar. Ömmuljósið vekur okkur broshýr á morgnana og þá er ekki annað hægt en ganga brosandi mót nýjum vinnudegi.

Að ættingjar mínir og vinir hafi komist þokkalega frá þessu hræðilega bankahruni,  þó skuldabyrðar okkar allra hafi þyngst um ókomna framtíð, virðist sem við öll munum ráða við þær með auknu aðhaldi og sparsemi.

En ég veit að svo er ekki raunin hjá mörgum fjölskyldum þessa lands og ég hugsa til þeirra á hverjum einasta degi. Mér finnst óþolandi til þess að hugsa að svo margir hafi tapað umtalsverðum fjárhæðum vegna bankahrunsins og jafnvel öllum sínum eignum.  Allar þessar fjölskyldur sem tóku lán í erlendri mynt, vegna þess að lánadrottnarnir beinlínis otuðu því að þeim. 

Á sínum tíma vildum við breyta okkar lánum í gengistryggð lán, en þjónustufulltrúinn í bankanum okkar mælti mjög á móti því, sagði að slíkt væri aðeins réttlætanlegt ef við fengjum tekjur í erlendri mynt.  Ég get seint fullþakkað þessum þjónustufulltrúa fyrir að hafa vit fyrir okkur.

En því miður voru fæstir svona heppnir.  Ég veit til þess að bankarnir bókstaflega öttu fólki út í "sparnað" sem þeir sögðu á sínum tíma að væri 100% pottþéttur.  Nú situr þetta fólk eftir með sárt ennið og jafnvel engan sparnað. 

Nágrannar mínir sögðu mér að þeir hefðu tapað um 10 milljónum á bankahruninu. Þetta er bara venjulegt fólk sem var búið að borga af húsnæðislánum í áratugi, sáu fram á að eiga loksins afgang og fóru að ráði bankans síns og fjárfestu í áhættusæknum sjóðum.  Í dag vitum við öll hvert þeir peningar fóru.

En stundum fær maður bara nóg af þessum neikvæðu fréttum. Við hjónin höfum gert það reglulega að kúpla okkur út úr fjölmiðlaumræðunni, bara til þess að missa ekki sjónar á því sem lífið snýst um.

Það snýst um að njóta þess, en samt sem áður get ég ekki að því gert að alltaf læðist að mér vitneskjan um allt það fólk sem á um sárt að binda þessi dægrin og um allt það fólk sem á sök á þessu ástandi, það fólk virðist ekki kunna að skammast sín.  Ég hef sagt það áður og segi það enn:  ég er döpur yfir því að finna til fyrirlitningar með einhverjum.  Það er ekki tilfinning sem ég hef upplifað fyrr en nú eftir bankahrunið.  

En ég ber virðingu fyrir íslensku þjóðinni, sem telur ekki eftir sér að vinna óhóflega langan vinnudag til þess að þeirra fólk og allir aðrir geti átt gott líf.

Einhvers staðar á leiðinni rugluðust skilaboð forfeðra okkar til hinnar ráðandi stéttar. Allt í einu snerist allt um að græða sem mest og níðast sem mest á náunganum.  Núna virðist sem engin lög nái yfir þessa glæpamenn og enn í dag hreykja þau sig yfir okkur hin, rífa kjaft og hóta málsóknum.

Ég bara skil ekki hvernig þetta fólk getur sofið á nóttunni eða horft framan í börnin sín kinnroðalaust.  Því það eru ekki bara börnin okkar sem sitja uppi með byrðarnar, það eru líka börnin þeirra og barnabörn sem munu sitja í súpunni.

En þrátt fyrir allar þessar hörmungar þá veit ég að ég get glaðst yfir ýmsum jákvæðum hlutum á hverjum degi.  Stundum er bara svo rosalega erfitt að koma auga á þá.

Ég elska landið mitt og einu sinni var ég stolt af því að vera Íslendingur.  Vonandi verður framtíðin þannig.  Að við venjulega fólkið munum elska landið okkar og vera stolt af því og allir fjárglæpamennirnir verði þá komnir á bak við lás og slá.

Hvað er eiginlega hámarksdómur fyrir landráð?


Oftast er lífið ljúft og þá er ástæða til þess að kætast

Það má segja að tilvera okkar Íslendinga kútveltist þessa dagana, en lífið gengur sinn vanagang hér í mÖmmukoti, þrátt fyrir allt.

Fjölskyldan mín dafnar sem aldrei fyrr, unglingurinn að útskrifast úr 10. bekk og með fyrirmyndareinkunnir ef ég þekki hann rétt.  Þó á það eftir að koma í ljós, en ég ber fullt traust til míns unglings og veit að hann mun standa sig vel.  Útskrifarferðin hans afstaðin og hann var dreginn í sumarvinnu á sama klukkutíma og hann lenti í bænum eftir Þórsmerkurferðina.  Það var þreyttur stráklingur sem mætti allt of seint í matinn í gærkvöldi, en að launum fékk hann þessa fínu heimabökuðu pizzu og að sofa rækilega frameftir í dag.

Barnabarnið mitt sem er nota bene nafna mín, mér til mikillar hamingju dafnar vel.  Loksins er litla píslin okkar farin að fá alvöru mat og það má sjá að henni lá á, því hún tekur hraustlega við öllu og hefur braggast alveg ótrúlega vel síðustu vikur.  Áður var hún bara óttalega mikil títla, eiginlega algjört smábarn, en núna er hún bara glöð og broshýr dama sem sáldrar í kringum sig gleði og hamingju.

Það er ekki langt í að hún fari að skríða, þó hún sé aðeins tæplega fimm mánaða þá er hún að myndast við að tylla sér á fjóra fætur.  Mér er minnisstætt að mamma hennar var með afbrigðum fljót að öllu og forvitið barn og fylgdist vel og vandlega með öllu sem gerðist í kringum sig.  Og fyrstu jólin hennar skreið hún í fyrsta skipti, rúmlega sex mánaða.  Við settum hana á gólfið langt frá jólatrénu og sú stutta skreið af stað til þess að skoða alla þessa litskrúðugu pakka og fékk að tæta aðeins í þeim að launum.

Mér þykir þó súrt í broti að dóttir mín sem er einstæð móðir fær ekki nema sex mánaða fæðingarorlof. Giftir foreldrar fá níu mánaða orlof og eiga að skipta því á milli sín.  Við vitum þess þó mörg dæmi að pabbarnir hafa samið við atvinnurekendur sína um að skrá sig í fæðingarorlof, en vinna samt, sumir hafa jafnvel skráð mömmuna í vinnu í sinn stað, en mætt í vinnu hvern dag og mamman heima með börn og buru.

Þetta er alveg hrikalega ósanngjarnt gagnvart einstæðum mæðrum og eins og margt annað í þessu þjóðfélagi er svona svindl látið viðgangast, en börn einstæðra mæðra sitja í súpunni.   

Það má svo sannarlega segja að við njótum góðs af því að heimasætan og ömmustelpan búi hérna hjá okkur.  Heimasætunni fellur aldrei verk úr hendi og við höfum varla unnið handtak síðan þær fluttu í kotið (ég verð þó að segja hér sjálfri mér til varnar að oftast nær sé ég um að versla og elda)  En ég t.d. sem á að heita húsmóðirin á þessum bæ finn hjá mér sterka þörft til þess að hrópa tilkynningar um allt hús ef ég þríf klósettið eða tek úr uppþvottavélinni.  En e.t.v er það fulllangt gengið þegar húsmóðirin spyr heimasætuna hvort hún megi setja í þvottavél.  Það er ekki hægt kvarta yfir svona hreingerningaóðum heimilismeðlimi. og ekki kvarta ég, né nokkur á þessu heimili. Það er bara ótrúlega endalaust notalegt að fá að hafa þær mæðgur hérna hjá okkur, fá að fylgjast með daglegum þroska Sigrúnar Evu og jafnvel einstaka sinnum að hjálpa smá til með litla gullmolann okkar.

Í sumar ætlum við fjölskyldan að ferðast um landið með nýja vagninn okkar í eftirdragi.  Það verður samt líklega ekki neinn ódýr túr, því líklegast förum við á tveimur bílum svo nóg pláss sé fyrir mannfólk, hund, barnakerru og ýmislegt dót.  Það er af sem áður var þegar fimm til sex manns var troðið í Folksvagen ásamt viðlegubúnaði og nesti, en þannig var það í minni æsku.  Þá voru sumir meira bílveikir en aðrir, en almennur pirringur í gangi vegna þrengslanna.

Senn líður að því að heimasætan þarf að fara að vinna aftur og þá er amman að hugsa um að hliðra til í sinni vinnu svo litla skotttið þurfi ekki að byrja lífið á óendanlega löngum vinnudegi.  Kannski afi taki nokkrar vaktir á móti ömmunni og þá ætti þetta ekki að verða svo rosalega mikil umskipti fyrir litlu prinsessuna okkar.


Furðuferðasaga númer 3 - Sveðja í lestinni

Furðuferðasaga þrjú.

Ég er ekki mjög víðförul kona, en skrapp til kóngsins Köben síðustu helgi og þá rifjaðist upp fyrir mér nokkrar sögur frá fyrri heimsóknum þangað.

Í síðustu dvöl minni í Kaupmannahöfn dáðist ég mjög að samgöngukerfi þeirra þar í borg og þá rifjaðist upp fyrir mér að hér um árið þegar við Sara mín vorum túristar í Köben skruppum við á Bakkann einn daginn.  Við tókum strætó á svæðið og hestvagn í gegnum skóginn, alveg yndislegur dagur sem við eyddum í að fara í hin ýmsu tívolítæki og nutum lífsins. 

Það var þar sem Sara mín varð fyrir þeirri óheppni að fíll steig ofan á fótinn á henni. Reyndar ekki stór fíll, hún (fíllinn) hét Tanja og var á fílaunglingsaldri, en alveg örugglega ekki gott fyrir sex ára hnátu að verða undir táningsfíl.

Við ákváðum að taka lestina heim á Hovedbanegarden og sú sem við náðum var frekar seint um kvöldið.  Settumst við mæðgurnar nú í sæti þar sem tvö sætu sneru á móti okkur og líkaði vel.  En á næstu stoppistöð lestarinnar kemur inn í vagninn mjög svo óárennilegur gaur og hyggst setjast í sæti beint á móti okkur.  Mér leyst nú ekkert sérstaklega vel á kauða, vonaði þó það besta og gerði ráð fyrir því versta, sem rættist reyndar.

Þegar kauði hyggst taka sér sæti, stynur hann allt í einu ámátlega, réttir svo úr sér og dregur ca. 40-50 cm sveðju upp úr buxnastrengnum, sest niður og leggur sveðjuna yfir lærin á sér, en lætur samt ekki mikið á sér bera að öðru leyti. 

Ég verð að viðurkenna að þarna fylltist ég skelfingu.  Náunginn lét svosem ekki ófriðsamlega, en ég var skelfingu lostin með þennan náunga fyrir framan okkur, en samt þorði ég ekki að flytja okkur til í vagninum.

Ég sagði við Söru mína sem var örmagna af þreytu eftir daginn og skelfingu lostin að við skyldum sitja sem fastast og fara út um leið og flestir færu út úr vagninum.

Ferðin leið nokkrar stoppistöðvar þar sem nokkrar hræður komu inn eða fóru út úr vagninum og ég var stanslaust með augun á þessum skuggalega gaur, en reyndi samt eftir megni að dreifa athygli dóttur minnar frá honum. 

Svo kom loksins að því sem ég hafði beðið eftir, flestallir aðrir flykktust út úr lestinni, svo við mæðgurnar ætluðum sko ekki að vera einar með þessum náunga og skokkuðum á eftir liðinu.  Í rólegheitum rak skuggalegi gaurinn lestina og eiginlega var ég sannfærð um að hann væri á eftir okkur með sína hræðilegu sveðju.

Í öllu stressinu hafði ég ekki tekið eftir því að við vorum komnar á lestarstöðina okkar, ég var svo upptekin af því að fylgjast með sveðjunni. En þegar út var komið og ég fattaði að við vorum komnar á heimaslóðir tókum við mæðgurnar á rás beint heim á hótel sem var sem betur fer hinu megin við götuna.

Í ferð minni til Köben núna um daginn, um tuttugu árum seinna gat ég ekki annað en dáðst að samgöngukerfinu þar.  Allir strætóar og lestir sem við fórum í voru mjög hrein, fljótlegt var að komast á milli staða og verðið var mjög sanngjarnt.  Ef samgöngur á stór-Reykjavíkursvæðinu væru sambærilegar myndi ég mjög líklega nýta mér þær. En eins og staðan er í dag tekur mig yfir 60 mínútur að fara með strætó í vinnu á meðan ég er 15-20 mínútur að keyra, þá held ég mig frekar við bílinn.  Og losna við hinar ýmsu hrellingar sem geta komið upp á við að nota almenningssamgöngur s.b.r. söguna hér að ofan.


Kannast við þetta.... braust einu sinni út úr búð með aðstoð löggunnar

Fyrir margt löngu þegar ég var enn á barnaskólaaldri ca. 9 ára, sendi mamma mig niður í Málningu og járnvörur sem var staðsett á Laugaveginum. Ekki man ég hvaða dagur var, en ekki gerði neinn ráð fyrir öðru en búðin væri opin.

Geng ég nú inn í búðina og litast um, ekkert fólk var á svæðinu svo ég bara beið.  Leið nú allnokkur tími og ég var nú farin að verða smeik,  halllóoo, er einhver hérna halllóoo?  Enginn svaraði.  Nú ekkert var annað til ráða en að fara bara aftur heim, en úpps,  báðar dyrnar voru lokaðar og læstar og ekki hægt að opna innan frá nema með lykli.  Ég man hvað ég varð rosalega stressuð, en hélt þó ró minni.  Rölti um búðina, en þorði ekki inn á lagerinn, því þar var svartamyrkur.  Peningakassinn var opinn og þar glitti í þvílík auðæfi í augum níu ára stelpu.  Svo rak ég augun í síma og hringdi hið snarasta heim og sagði mínar farir ekki sléttar.  Mamma ætlaði varla að trúa því að ég væri að segja satt, en sagðist hringja í lögguna og biðja þá að ná mér út úr húsinu.

Og það varð úr, lögreglan mætti hið snarasta á svæðið, en þeir gátu ekki opnað frekar en ég enda höfðu þeir engin lyklavöld í Málningu og járnvörum.  Þá fattaði einn snjall lögregluþjónn upp á því að fyrst þetta væri byggingavöruverslun þá hlyti ég að geta fundið stiga svo ég gæti prílað út um örmjóan glugga fyrir ofan útidyrnar.  Ég, spennt að losna úr prísundinni fann stiga og hamar að auki, því augljóst var orðið að berja þyrfti niður einhverja járnkróka sem þarna voru, svo ég myndi nú ekki skerast á hol á útleiðinni.

Þannig að ég prílaði upp stigann og reyndi að troðast út um gluggann og tveir lögrelguþjónar toguðu hraustlega í mig og tóku vingjarnlega á móti mér.  Það hafði safnast saman múgur og margmenni þarna við búðina og þegar ég glitti í mömmu í fólksfjöldanum féll mér allur ketill í eld og fór að hágrenja.

En við mamma fengum far heim með löggunni sem var náttúrulega mun meira spennandi.

 


mbl.is Búðardyrnar opnar í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamingjudagar í "ömmukoti"

Það er orðið allnokkuð síðan ég bloggaði, enda búið að vera mikið að gera undanfarið.

Dóttir mín eignaðist sitt fyrsta barn (og fyrsta ömmubarnið mitt) s.l. miðvikudag, 14. janúar.  Hraust og falleg stúlka tæplega 13 merkur og 49 sentimetrar.  Litla ljósið okkar er alveg yndisleg og við erum öll í skýjunum yfir fæðingu hennar.

Ég - amman sjálf - var svo lánsöm að fá að vera viðstödd fæðinguna og var og er enn í sæluvímu yfir þessu öllu saman.  Dóttir mín stóð sig alveg eins og hetja og var ekkert að hangsa yfir þessu eins og mamma hennar í den.  Reyndar lá þeirri litlu svo mikið á að koma í heiminn að ekki gafst tími til þess að gefa mömmunni verkjalyf.  En þetta gekk allt saman eins og í sögu og mæðgunum heilsast vel.

                                                Sara1 102

Þó er sængurlegan mikið breytt síðan ég átti mín börn.  Stelpurnar okkar voru komnar heim 21 klukkustund eftir fæðingu.  Að mínu mati er þetta miklu notalegra svona. Þær mæðgur voru í Hreiðrinu og þar er mjög notalegt að vera, næstum bara eins og heima. 

En ég er þó ósátt við að konur sem koma á fæðingadeildina þurfa að borga í stöðumæli fyrir bílinn ef þær eru þar á milli 8 til 16 á virkum dögum.  Hver ætli sé að hugsa um að borga í stöðumæli þegar stórkostlegasti atburður lífsins stendur yfir.  Ég vona bara að Bílastæðasjóður taki tillit til aðstæðna ef fólk fær sekt þarna.


Hundur + lifrarpylsa + köttur =

= VINIR HeartHeartHeart

Nei þetta er ekki ný uppskrift að gúrmeirétti í kreppunni.  Þetta er uppskrift af því hvernig ég lét Zenjór Freddý og Betúel hefðarkött sættast.  Ég sat í sófanum, kötturinn öðru megin og hundurinn hinu megin.  Svo mataði ég þá á lifrarpylsu og tældi þá þannig til að nálgast hvorn annan Smile

Núna kúra þeir stundum saman hjá heimasætunni og tvisvar hafa þeir verið staðnir að því að snoppast saman. Sem er svona  "kyssast eins og kisurnar"InLove.

Hundar eru meira fyrir það að hnusa af óæðri enda þeirra sem þeir mæta á förnum vegi og Betúel hefðarköttur er ekki par hrifinn af því.  Þá er nú fljótt sem hann sýnir klærnar of vissara fyrir Zenjór Freddý að forða sér.  En það gerir hann ekki, heldur hefur upp raust sína og ætlar alla að æra.Halo

Það tók cirka 3-4 daga að venja þá saman (þeir átu ekki lifrarpylsu í 3-4 daga).  Kisi er nú laus úr stofufangelsinu og farinn að fara út.  Fyrst var hann í bandi og kunni því ekki vel, þ.e.a.s. ef hann fékk ekki að ráða ferðinni, þá lagðist hann bara á jörðina með lappirnar upp í loft.  Það hlýtur að hafa verið grátbroslegt á að horfa.LoL

Kisi hefur hingað til búið í lítilli stúdíóíbúð og hafði þá mikla þörf fyrir að fara út.  En núna þegar hann er fluttur í stærra húsnæði, virðist hann ekki hafa sömu þörf fyrir útiveru, enda mun meira pláss í ömmukoti.Happy

Zenjórinn er svo sem ekki búinn að láta titil sinn "sómi fjölskyldunnar, sverð hennar og skjöldur" af loppu, en hann ber ákveðna virðingu fyrir þessu aðskotaloðdýri, enda er það skárra en að lenda í klónum á hefðarkettinum.Cool

Og á næturnar er hundurinn lokaður inni í svefnherbergi og þá fær kisi að valsa um, enda vita allir að kettir eru næturdýr, en hundar meira dagdýr.Sleeping

Til að gæta fyllstu sanngirni vil ég taka fram að aðrir fjölskyldumeðlimir hafa að sjálfsögðu lagt sig í líma við að venja hund og kött saman og hefur ýmislegt verið gert í þeim efnum, sem væri efni í aðra og mun lengri grein, en hér læt ég staðar numið.Wink


Freddý Zanzibar er ekki sáttur.

Frumburðurinn er fluttur aftur heim í mömmukot og með fylgdi Betúel hefðarköttur.

Nú er fyrsta nóttin þeirra afstaðin og gengur mikið á.  En það er nú aðallega Freddý Zanzibar sem stendur fyrir því.  Hann er búin að breytast í ýludúkku m.v. hljóðin sem hann framleiðir.  Liggur fram á lappirnar við dyrnar hjá Betúel hefðarketti og vill komast í fjörið.  Hann hefur aðeins fengið að finna fyrir klóm kisu, en sloppið við skaða hingað til.

Þó var minn morgunsvæfi hundur kominn á ról um sjöleytið í morgun, en þá fór Sara kisumamma á stjá, enda á leið til vinnu.  Núna erum við bara þrjú í kotinu.  Kisi í sínu ríki og Zenjórinn hvílir sig hér við hlið mér á meðan ég pikka inn í tölvuna. 

Hann hefur aldrei áður á sinni 5 ára ævi vaknað svona snemma að morgni til og er orðinn þreyttur mjög.

Kannski er ráðið að þreyta hann enn meira, þá nennir hann ekki að skipta sér af Betúel hefðarketti þegar hann birtist.

Hvað með það, mér finnst bara mjög notalegt að fá stelpuna mína aftur heim eftir margra ára fjarveru úr mömmukoti (reyndar færði hún aldrei lögheimilið) og vona bara að Betúel hefðarköttur og Freddý Zanzibar verði góðir vinir þegar fram líða stundir.  Sem verður vonandi sem fyrst.

Sumir segja að við séum geðveik að ætla að taka kött inn á heimilið til heimaríks hunds, en aðrir eru mjög sammála okkur.  En ekki gátum við hent Betúel hefðarketti út á guð og gaddinn, eins yndislegur og hann er.

 


Dýravinir - hjálp óskast - STRAX

Hann Betúel 13 ára hefðarköttur er fluttur aftur í ömmuhús eftir tæplega 10 ára fjarveru.  Í millitíðinni hreiðraði um sig yndislegur hundur, hann Freddý Zanzibar.  S.l. 5 ár hefur hann verið sómi fjölskyldunnar, sverð hennar og skjöldur.

Vandamálið er að Betúel er í húsnæðisvandræðum og ekki kom annað til greina en að hann kæmi til okkar, þrátt fyrir kattahatandi hund á bænum.

Ballið byrjaði í dag.  Betúel hefðarköttur hagar sér eins og honum sæmir, en Freddý Zanzibar er algjörlega óður, geltir, ýlfrar, étur hvorki né drekkur og hefur ekki einu sinni viljað fara út í göngutúr.

Vil samt taka það fram að Freddý virðist ekki vera reiður, dillar rófunni en virðist vilja nálgast kisa, sem þá sýnir sínar nýklipptu klær.

Kæru Bloggarar.  HJÁlP.  Hvernig venur maður saman 13 ára blíðan hefðarkött og 5 ára heimaríkan hund (sem er reyndar mjög og afar ljúfur þegar kettir eru ekki nálægt).

Hjálp óskast sem allra fyrst.


Allt að hrynja og sparnaðurinn líka.

S.l. sumar borgaði ég viðgerðarmanni kr. 9.000,- fyrir örorkumat á ísskápnum okkar.  Næst þegar hann bilar er víst óhætt að gefa út dánarvottorð á hann.  Ég ákváð að sýna nokkra forsjálni og hóf að spara svo ég geti keypt nýjan tvöfaldan ísskáp þegar kallið kemur.  Þar sem ég átti nokkra þúsundkalla í handraðanum var sjóðurinn orðinn allnokkur.  En alldeilis hefur verið kroppað í hann undanfarið.

Fyrst hrundu tveir gemsar á heimilinu og voru keyptir nýjir fyrir sjóðinn góða.  Til að kóróna allt reyndust þeir báðir gallaðir.  Þeir hjá Símanum vildu gera við þá, en það tókum við ekki í mál og fengum við þá nýja eftir nokkuð stapp.

Mixerinn hrundi líka með miklum látum og brussugangi, það er nú ómissandi tól á hverju heimili nú til dags.

Við létum þó ekki deigan síga, engin ástæða til þess að leggjast í þunglyndi og ákváðum að lakka parketið á efri hæðinni.  Því fylgdi töluvert rask og fjárútlát.  Við leigðum sumarbústað fyrir austan, þar sem ólíft yrði í húsinu með allt drasl efri hæðar hrúgað á þá neðri. 

Eftir fyrstu lakkumferðina kom því miður í ljós að lakkið var gallað, hægt var að kroppa það upp með nögl og þurfti að pússa allt gólfið og lakka að nýju.  Þeir í BYKO tóku þó vel á málinu og endurgreiddu okkur kostnaðinn og borguðu fyrir vinnu að hluta.  Og sumarhúsaeigandinn var svo vænn að leiga okkur bústaðinn þriðju nóttina á stórlega niðursettu verði, eða kr. 2.000,- þúsund þakkir fyrir það.

En sjaldan er ein báran stök.  Tölvukallinn okkar lét okkur vita af því að fartölvan okkar sem hann ætlaði að hressa við væri endanlega búin að vera.  Svo ég sit hérna, pikkandi á lánstölvu og velti því fyrir mér að tæma ísskápssjóðinn minn til að nota sem innborgun á tölvu, restin verður að fara á visa-rað.  Ísskápurinn tórir enn og ég ligg á bæn að svo verði áfram.  Enda sjóðurinn uppurinn með öllu.

Ekkert annað að gera en byrja að spara upp á nýtt.


Steluþjófar í búðum

Furðuferðasaga tvö

Sagan um svanga þjóninn var númer eitt.

Las í e-h blaði í gær að þjófnaðir kostuðu verslunareigendur milljarða á hverju ári og þá rifjaðist upp fyrir mér að eitt sinn varð ég vitni að þjófnaði í verslun - og eins og margir aðrir, gerði ekkert í því, enda algjörlega stjörf af undrun.

Þetta gerðist á þeim árum sem enn var hagstætt að skreppa og versla yfir pollinn.  Við vorum semsagt í verslunarferð og eins og alvöru íslendingum sæmir þræddum við ganga í risastórri verslun og mokuðum í kerruna okkar frá hægri og vinstri.  Á rölti mínu um gósenlandið hafði ég tekið eftir tveimur nunnum sem litu út fyrir að vera akkúrat það sem þær dressuðu sig upp til að vera, þ.e.a.s. nunnur.  Uppþornaðar, aldrei sett rakakrem framan í sig og vissu líkast til ekkert hvað maskari væri og því síður varalitur. 

En þær voru þarna að versla eins og hver annar hélt ég og þar sem ég stend og velti fyrir mér hvort ég eigi nú að kaupa 10 eða 20 sokkapör á stórlega niðursettu verði, verð ég vitni að því að önnur nunnan - svo saklaus og sannkristin - stingur inn á sig sokkabúnti, það var þetta með 20 pörum.  En ég varð svo hissa og algjörlega orðlaus að ég hafði ekki rænu á að segja neinum frá.  Ég njósnaði þó um þessa "brúði Krists" og félaga (kvk. félögu, bara spyr?) alveg fram að kassanum og þar gengu þær báðar hnarreistar og algjörlega skuldlausar að eigin mati beint í gegn og borguðu ekki krónu, ég meina pund. En eftir stóð ég og með glöðu geði borgaði ég uppsett verð og velti fyrir mér hvað annað væri nú undir nunnukuflunum.  Það er nú ýmislegt sem hægt er að leyna þar, og duga 20 sokkapör lítt í þá hít.   

Hvað með það, mér fannst ég græða á hagstæðara verðlagi en heima, en í raun tapaði ég líka vegna þess að tap vegna steluþjófa bitnar bara á heiðarlegum viðskiptavinum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband